Jón Gunnarssyni var tíðrætt um nýjan veruleika á fundi í dag. Veruleika sem í senn væri almenningi falinn ásamt því að blasa við. Ráða þurfi fleiri lögreglumenn til að verjast óljósri, nýrri vá sem ráðherra rekur til fjölgunar landsmanna og ferðamanna.
Jón sagði almenning ekki gera sér grein fyrir því hve skipulögð brotastarfsemi hafi aukist mikið á síðustu árum.
Hann segir samfélagið gjörbreytt enda hafi landsmönnum fjölgað sem og ferðamönnum. Þetta kallaði á viðbrögð. Þau fela í sér að fjölga verði lögreglumönnum, efla lögreglunámið og bæta ennfremur í, við aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, tók undir orð ráðherra á fundinum. Hún sagði lögregluna hafa verið allof fámenna alltof lengi og að verkefni lögreglunnar hefðu gjörbreyst á undanförnum árum án þess að útskýra það nánar. Fram kom á fundinum að hlutfall ómenntaðra lögregluþjóna á móti menntuðum hefur ekki verið lægra síðan árið 2007. Sigríður Björk hvatti áhugasöm að sækja um nám í lögreglufræðum til að stemma stigu við þeirri þróun.
Í aðgerðunum sem kynntar voru á fundinum bar hæst að 70 ný stöðugildi verða til hjá lögreglunni og skiptast þau niður á embættin og eftir landshutum.
Ráðherra tók síðan sérstaklega fram að þetta væri fyrir utan þau stöðugildi sem bættust við á kynferðisbrotasviði í fyrra: “Sem ráðherra hef ég lagt mikla áherslu á baráttuna gegn kynferðisafbrotum,” sagði Jón.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, kvað aukið fjármagn til lögreglu vissulega vera ávinning fyrir allt samfélagið. Hún nefndi sem dæmi að opnum kynferðisbrotamálum hafi fækkað um 37 prósent á fáeinum mánuðum vegna aukins mannafla og slíkt „gerðist ekki af sjálfu sér.“
Við eftirgrenslan blaðamanns bendir ekkert til þess að fjölgun hafi orðið á ákærum í ofangreindum málaflokki með afgreiðslunni.
Stöðugildin skiptast niður sem hér segir:
30 stöðugildi í almenna löggæslu, mest á höfuðborgarsvæðinu, til að efla viðbragðsflýti og tryggja öryggi almennings.
20 stöðugildi v. skipulagðrar glæpastarsemi. Áfram verði starfað innan sérstaks rannsóknarteymis þvert á lögregluembættin, í samvinnu við EUROJUS. Vinna sem leidd verður áfram af Ólafi Þór Haukssyni, héraðssaksóknara. Ólafur sagði viðbótarstöðugildin auka getu réttarvörslukerfisins og að aukin áhersla yrði lögð á fjármunabrot sem væru ávinningur af skipulagðri brotastarfsemi.
10 stöðugildi voru merkt samfélagslögreglu en þetta munu vera sérfræðistörf fyrir lögregluþjóna með viðbótarþekkingu á sviði almannavarna auk sérfræðinga við tölvur og annað upplýsingalæsi.
10 stöðugildi landamæravarða. Ekki var tekið fram sérstaklega hvar eða hvernig störfum þeirra yrði háttað.