Elva sver af sér Drífu, Höllu og Sóley

Elva Hrönn Hjartardóttir, frambjóðandi til formanns VR, sver af sér öll tengsl við VG og Sjálfstæðisflokkinn í færslu sem hún birtir á Facebook. Einnig sver hún af sér að hún „komi beint úr smiðju Sóleyjar Tómasdóttur og Drífu Snædal“. Sú kenning heyrðist á Bylgjunni fyrr í dag, að hennar sögn. 

Hér fyrir neðan má lesa færslu Elvu í heild sinni. 

Síðan ég tilkynnti framboð mitt hefur það verið bendlað við VG og Sjálfstæðisflokkinn, samstarfsfólk mitt í VR og ég hef fengið nafnbótina „afkvæmi Drífu Snædal og Höllu Gunnarsdóttur“. Nú í morgun lét hinn „einstaki“ Frosti Logason í ljós sína samsæriskenningu á Bylgjunni þar sem verið var að fara yfir fréttir vikunnar. Hann vill meina að ég komi beint úr smiðju Sóleyjar Tómasdóttur og Drífu Snædal og að ég fari fram fyrir „alla femínista landsins til að taka yfir VR.“ Ég held ég verði nú að segja að þetta sé uppáhalds kenningin mín til þessa. 

Ég segi það enn og aftur: Ég er í þessu framboði á mínum eigin forsendum af því að ÉG tók þá ákvörðun sjálf. Ég er fullkomlega fær um að taka eigin ákvarðanir og það eru engin öfl á bakvið mig, hvorki fjárhagsleg, pólitísk eða af öðrum toga. En ég hef vissulega fengið heilmikla hvatningu allsstaðar að. 

Ég gef kost á mér af því að mér og fjölmörgum sem þekkja til mín finnst ég eiga erindi sem formaður VR. Af því að allt mitt líf hef ég lagt mig alla fram við að koma vel fram við náungann, tala máli þeirra sem einhverra hluta vegna geta það ekki sjálf og nýta mína forréttindastöðu í lífinu til að vinna í átt að réttlátu samfélagi. Þess vegna býð ég mig fram í formann VR

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí