Engin þjóðarsátt meðan ríkir verða ríkari á okkar kostnað

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinar, segir á Facebook að allt tal um nýja þjóðarsátt sé þvæla. Ástæðan sé einföld: aðstæður nú séu gjörólíkar aðstæðum árið 1990. Nú sé blússandi hagvöxtur og algjör gósentíð hjá hinum ríku. Á sama tíma er meirihluti þjóðarinnar að berjast í bökkum.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Jóhanns Páls í heild sinni.

Þjóðarsáttin 1990 var gerð í skugga efnahagssamdráttar, eftir viðvarandi taprekstur og gjaldþrotahrinu í stærstu atvinnugreinum. Þá var ekki mikið til skiptanna.

Nú eru aðstæður allt aðrar í þjóðfélaginu.

Það er blússandi hagvöxtur. Hagnaðartölurnar árin 2021 og 2022 eru þær hæstu á öldinni. Gósentíð hjá stórútgerð þar sem arðgreiðslur eru margfaldar á við veiðigjöld, fjármagnstekjur í hæstu hæðum, meðallaun forstjóra í Kauphöllinni 7 milljónir á mánuði og tekjuhæsta eina prósentið tekur til sín æ stærri skerf af þjóðarkökunni.

Á sama tíma er fjöldi heimila í vanda. Hlutfall þeirra sem segjast eiga erfitt með að ná endum saman hefur þrefaldast á tveimur árum samkvæmt kjarakönnun Gallup. Kaupmáttur fer rýrnandi, leigukostnaður og greiðslubyrði lána rýkur upp og æ fleiri heimili eru rekin á yfirdrætti.

Ráðamenn geta ekki krafið verkalýðshreyfinguna um hófsemi en haldið áfram að reka stefnu sem gerir ríka ríkari á kostnað almennings.

Ef hér á að nást einhver þjóðarsátt verður það að vera þjóðarsátt um réttlátari skiptingu gæðanna og réttlátari skiptingu byrðanna.

Hér fyrir neðan má sjá Jóhann Páll ræða ríkisfjármál í Rauða borðinu fyrir tveimur vikum.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí