Ónefndur kanadískur auðmaður festi nýverið kaup á jörðinni Horni í Skorradal en innan marka hennar er fjallið Skessuhorn. Auðmaðurinn erlendi ætlar sér að byggja þar þúsund fermetra höll og svo 700 fermetra gestahöll. Fréttablaðið greindi frá þessu fyrr í dag.
Margir hafa gagnrýnt þetta harðlega svo sem skurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson, en líkt og Hringbraut greindi frá, þá segir hann þetta ömurlega þróun. Sem sé mikilvægt að berjast gegn.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segist á Facebook sammála Tómasi. „Nú er ég sammála lækna Tómasi um að þetta sé ömurleg þróun sem mikilvægt sé að berjast gegn.Mitt mat er að það sé alls ekki hægt að horfa átölulaust uppá að erlendir auðkífingar séu að kaupa upp landið okkar. Það allavega sækir að mér kaldur hrollur að sjá þessa þróun. Alþingi verður að styrkja löggjöfina þannig að þetta sé ekki hægt að gera, ef það er yfir höfuð hægt,“ skrifar Vilhjálmur.
Einar Kárason, rithöfundur og fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar, deilir þessum áhyggjum. Hann segir einnig mikilvægt að Alþingi skerist í leikinn. Mikilvægt sé að tryggja að frjálsa för um landið, líkt og var lögfest fyrir nokkrum öldum.
„Það má sjá að góðir hérlendir menn óttast að auðkýfingar sem kaupa fjöll, óbyggðir og firnindi muni girða þau af, reka aðra í burtu. Það eru til lög sem hafa verið gildi í landinu um frjálsa för um óbyggðir og óræktað land; lög allt frá miðöldum og ekki er vitað til að hafi verið tekin úr sambandi. Sé einhver vafi í gangi um að þannig grundvallarréttur sé enn og í öllum tilfellum í gildi ber Alþingi nú þegar að eyða slíkri óvissu með því að skerpa á hinum fornu ófrávíkjanlegu meginreglum,“ segir Einar.