Gengdarlaus mannréttindabrot framin í heilbrigðiskerfinu daglega

Sævar Daníel Kolandavelu tónlistarmaður slasaðist illa fyrir sjö árum síðan en áverkarnir voru meiri en hann hélt í fyrstu. Heilbrigðiskerfið hefur neitað að sinna honum sem skyldi. Sævar er með fjöláverka í stoðkerfinu sem versnar bara. Hann er í óstöðugu ástandi og þarf átak til að geta setið uppréttur í klukkutíma í senn. Hann þarf stöðugt að halda höfðinu eða hálsinum uppi þegar hann situr uppréttur og segir að með áframhaldandi aðgerðarleysi muni hann lamast eða hreinlega deyja. Sævar hefur hafið uppreisn gegn stórgölluðu íslensku heilbrigðiskerfi og hvetur fólk til að segja sögur sínar inni á FB síðunni „Rétturinn til að lifa”.

Síðustu fimm ár hefur Sævar reynt að sækja sér aðstoð í Íslensku heilbrigðiskerfi en komið að lokuðum dyrum. „Það sem kemur mér mest á óvart er aðildarleysi sjúklinga að eigin kerfi”, segir hann og bætir við „það er eiginlega meira komið fram við sjúklinga eins og sakborninga í sakamáli eða fanga fremur en sjúklinga ef þeir hafa skoðanir á eigin meðferð. Í dag er ég búinn að átta mig á því að það eru svo gegndarlaus mannréttindabrot framin í heilbrigðiskerfinu á hverjum degi, hlutir sem fólk myndi eiginlega ekki trúa og það hefur verið mjög súrrealísk upplifun fyrir mig og fjölskyldu mína að upplifa þetta.”

Á árinu 2020 endaði Sævar 13 sinnum á bráðamóttöku og 27 sinnum á heilsugæslu þar sem hann var í raun að grátbiðja um hjálp. Á þessum tíma er hann orðinn það slæmur að hann gat ekki setið uppi nema halda hálsinum á sér föstum með höndunum. Mjöðmin er slitin frá hryggnum og við slökun þá togar hún eins og lóð í hrygginn og eykur hreyfigetu hans það mikið að líkaminn verður eins og tjald í vindi sem tjaldhælarnir eru teknir úr. Þá strekkist svo svo mikið á öllum mjúkvefjum að þeir eru við það að slitna. Sævar fór utan í neyðaraðgerð sama ár þar sem rif var fjarlægt en hendin á honum var farin að blána og hann í mikilli blóðtappahættu. Enginn læknir hér heima var að sinna þessu. Spítali í Þýskalandi með fremstu sérfræðingum bauðst svo til að taka hann í allsherjar rannsóknir og meðferð en honum tókst hvorki að fá sérfræðinginn sinn hér heima til að skrifa almennilega umsókn né vildu sjúkratryggingar greiða fyrir þjónustuna. Þá fór hann í aðgerð á fæti sem skilaði honum heim alveg ósjálfbjarga, en Sævar notar hækjur til að komast um sem hann á þó erfitt með vegna hálsins.

Hann eyðir deginum í að halda kroppnum saman svo hann spennist ekki í sundur en í dag er hann kominn með 16 mismunandi áverka auk þess að vera farinn að fara úr hálslið og fleiri liðum. Öll liðbönd orðin mjög slitin en liðböndin eru mjög mikilvæg og halda beinunum á sínum stað. „Þegar þau slitna þá geta beinin losnað og farið að færast til” segir Sævar, en þetta ástand ágerist með hverjum deginum. Liðböndin í hálsinum eru orðin það slitin svo hann segir það vera daga eða mánaða spursmál um hvenær þau gefa sig endanlega.

Fljótlega í ferlinu fór Sævar að finna fyrir því að læknar vildu ekki skoða mál hans til þrautar en hann segir að eftir að reyna að kryfja hvers vegna þá hafi hann komist að ýmsu. „Kerfið er hannað til að veiða inn eins mörg mál og mögulegt er en fyrir minnstan pening. Það eru búnir til ferlar sem miðast að þessu í stað þess að miða að vísindalegum greiningum. Í tilfelli eins og mínu þar sem þú þarft lengri tíma en korter til að skilja hvað er að, þá er ekki gert ráð fyrir því”.

Hann segir einnig mikið eyma eftir af gamalli stéttaskiptingu þegar kemur að læknastarfinu. Læknar sjái sig oft sem valdhafa yfir sannleikanum í gegnum ofurtrú þeirra á eigin skoðunum. Slíkt stangist einfaldlega á við fræðin. Læknavísindi séu almennt ekki stunduð þannig og persónur og titlar skipti ekki máli.

Þá segir hann læknanámið vera hörmulegt og læknar viti oft lítið hvað þeir séu að gera. Þeir læra á ákveðnar uppskriftir en skipulagið sé óreiða. Við þetta bætist peningaleysi, starfsmannaleysi og þekkingarleysi sem geri vinnuumhverfið afar erfitt. Læknar lenda því í skrítnum aðstæðum undir þessum kringumstæðum. Þeim er ekki gert mikið kleift að kvarta við sína yfirboðara því þeir lenda gjarnan í veseni við það. Þeir geta þá kannski bara boðið upp á einhverja eina úrlausn en þurfa á sama tíma að bera ábyrgð á þeim ákvörðunum sem þeir taka. Og þar sem þeir bera ábyrgðina og eru þeir sem geta misst vinnuna, mannorðið eða orðið fyrir starfsmissi þá enda þeir jafnan í þeirri stöðu að velja frekar eitthvað sem lendir á sjúklingnum fremur en þeim sjálfum. Sævar segir það í raun ósköp mannlegt en að við þetta byggist upp einhver dýnamík á sjúkrastofnununum sem stuðlar að mannréttindabrotum.

„Við erum með lög sem segja að við eigum rétt á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á en heilbrigðisþjónustan á íslandi gæti þó verið sú versta. Ég er búinn að ferðast út um allan heim og ég hef hvergi fengið eins lélega læknisþjónustu og á íslandi”, segir Sævar.

Hann var staddur í Asíu fyrst þegar hann slasaðist og leitaði sér lækninga á einföldum ríkisreknum spítala á Indlandi. Þar var hann kominn í myndatöku daginn eftir og fékk samband við bæklunarlækni á þriðja degi. “Og þetta er það sem við myndum kalla þriðja heims ríki” segir hann.

Á svipuðum tíma var sonur hans að bíða eftir að komast til bæklunarlæknis hér á landi og þurfti að bíða í átta mánuði.

Sævar segir heilbrigðisyfirvöld vera vísvitandi og meðvitað að stuðla að mannréttindabrotum en eftir fréttir af því að kona hafi verið „forse feeded” eða mötuð til dauða inni á geðdeild í nafni verkferla hafi hann ákveðið að gera eitthvað í málunum. Hann vildi ekki sætta sig við slíkt samfélag. Einnig hitti hann mann sem í mikill einföldun tók hjartalyf með þær þekktu aukaverkanir að valda sjálfsvígshugsunum en hann leitaði á geðdeild þar sem hann var settur í spennitreyju og fékk raflost í hausinn tíu til fimmtán sinnum og var lokaður inni í herbegi meira og minna einn í fjóra mánuði. „ Hver er munurinn á þessu og pyntingum?”.

Sævar Daníel tekur fleiri slík dæmi í viðtali á Rauða borðinu mánudaginn 27. mars, sem María Pétursdóttir tók við hann þegar hún heimsótti hann á dögunum en hann er á leiðinni til Indlands aftur til að klára að vinna í sínum málum þar.

Sævar segir að eitt það fáa sem hann geti gert sé að tala og tjá sig á FB „Ef fólk tekur sig saman og stendur saman þá er hægt að gera byltingu. „Númer eitt sé að opinbera vandann en byltingin er framkvæmd í milljón litlum skrefum. Ef þessir tugþúsundir sem eru þarna úti og eru „traumatiseraðir” af því að fara í gegnum heilbrigðiskerfið opna sig og segja sínar sögur þá er hægt að hafa áhrif. Við þurfum að heyra sögurnar upphátt og fá þetta fram í dagsljósið. Við þurfum að viðurkenna það að það sé hætta á því að við verðum látin deyja úr hlutum sem enginn á að þurfa að deyja úr. Ef við gerum ekkert í þessu þá er það niðurstaða sem gæti beðið fjölda manns.” segir Sævar.

Hann hvetur fólk til að sameinast inni á síðunni „Rétturinn til að lifa” og segja þar sögur sínar, annað hvort undir nafni eða nafnlaust.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí