Hafa tvöfaldað peninginn frá því þeir keyptu Lyfju af Lindarhvoli

Ef af kaupum Festi á Lyfju verður munu eigendur Lyfju hafa tvöfaldað það fé sem þeir notuðu til að kaupa Lyfju af Lindarhvoli fyrir fimm árum. Það er árleg ávöxtun upp á 15,3% ofan á verðbætur. Eigendurnir hagnast um 3,5 milljarða króna á skömmum tíma.

Af þessu er ljóst að annað hvort hefur Lindarhvol selt Lyfju á of lágu verði eða nýjum eigendum hafi tekist að galdra fram gerbreytt félag. Hið fyrra er líklegra.

Þegar Hagar reyndu að kaupa Lyfju af Lindarhvoli í desember 2016 var kaupverðið 6,7 milljarðar króna sem gera 8,8 milljarðar króna á núvirði. Samkeppniseftirlitið ógilti þessi kaup. Þá seldi Lindarhvol núverandi eigendum Lyfju á tæplega 4,2 milljarða króna sem gera um rúmlega 5,3 milljarðar króna á núvirði. Það er heilum 2,5 milljörðum króna minna en Hagar voru tilbúnir að borga stuttu áður. Kvika banki sá um þessa sölu fyrir Lindarhvol.

Og nú vill Festi kaupa á 7,8 milljarða króna.

Frá því að þeir keyptu hafa nýir eigendur greitt sér arð upp á 350 m.kr. sem eru um 382 m.kr. á núvirði. Þeir lögðu til hlutafé til móðurfélagsins SID sem var um 3.749 m.kr. Nettó framlag þeirra er því um 3.367 m.kr.

Ef þeir fá 7.800 m.kr fyrir Lyfju munu eigendur borga upp lán fyrir um 935 m.kr. og eiga þá eftir 6.865 m.kr. Það er 3.498 m.kr. meira en þeir lögðu til þessa félags fyrir fimm árum. Það er gríðarlegur hagnaður af kaupum og sölu á eign almennings, sem Lindarhvol var treyst fyrir að koma í verð.

Eigendur SID eru sjóðurinn SÍA III sem á 70% og svo félög tveggja einstaklinga sem eiga sitthvor 15%. Það er annars vegar Ingi Guðjónsson sem stofnaði Lyfju ásamt Róbert Melax 2004 og keypti með honum upp apótek hér og hvar. Hins vegar Daníel Helgason, sem átti ásamt Inga hluti í spænska samheitalyfjafyrirtækinu Invent Farma, sem þeir seldu til Burðaráss og Framtakssjóðs Íslands ásamt öðrum hluthöfum fyrir um 10 milljarða 2013.

Eigendur SÍA III eru fyrst og fremst lífeyrissjóðir. Gildi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður Verslunarmanna og Stapi eiga hver um 14%, samtals um 56%. Sjóðnum er stýrt af Stefni, sem er dótturfélag Arion-banka. Stefnir fær bæði fastar þóknanir og svo hluta af hagnaði sem rennur til eigenda sjóðsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí