Íbúar í Hveragerði eru ekki alls kosta sáttir og segja enga þjónustu lengur að fá í bænum. Innan Facebook-hóps íbúa spyr kona nokkur hvað sé eiginlega að gerast í bænum. Margir taka undir með henni.
Konan skrifar fyrr í dag: „Hvað er að gerast í þessum fallega bæ okkar? Bankinn farinn. Pósthúsið að fara. Hægt að fara í blóðprufur einu sinnu í viku og þá löng bið því allt upppantað. Bæjarstjóri, hvar og hver er hann? Það heyrist og sést lítið af honum. Þetta er stækkandi bæjarfélag.”
Önnur kona bendir á að fiskibúðin sé einnig farin og sú þriðja segir ekki gott að fá hraðbanka í stað bankaútibús. „Hraðbankar er okurfyrirtæki bankanna. 275 kr. fyrir að taka út smá pening ef maður er ekki í réttum banka. Þetta kalla þeir þjónustugjald,” skrifar hún.
Njörður Sigurðsson, sem situr í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fyrir Okkar Hveragerði, svarar konunum og segir þetta allt öðrum að kenna. „Bæjarstjórn öll er nú sem hingað til vakin og sofin yfir þjónustu við íbúa Hveragerðisbæjar. Sú þjónusta sem þú nefnir er ekki á höndum Hveragerðisbæjar heldur ríkisins (Íslandspóstur og heilbrigðisþjónusta) og einkaaðila (bankaþjónusta). Bæjaryfirvöld eru og hafa beitt viðkomandi aðila þrýstingi um að gera betur, og munu halda því áfram nú sem hingað til.”