Komið í ljós að við höfðum algjörlega rétt fyrir okkur

„Nú er komið í ljós að við höfðum algjörlega rétt fyrir okkur,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Það hefði verið best að láta Eflingu leiða samningaviðræður við SA. Best að láta sýn Eflingar á stöðuna ráða ferðinni og meta aðstæður. Best að láta Eflingu krefjast aðgerða frá stjórnvöldum. Ekki aðeins fyrir Eflingar-fólk, heldur allt vinnandi fólk.“

Sólveig Anna skrifaði pistil á Facebook í ljósi stöðunnar í efnahagsmálum, mikillar verðbólgu og vaxtahækkana og aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart lífskjarakrísunni. Kaupmáttur launafólks brennur hratt upp.

„Samninganefnd Eflingar barðist lengi fyrir því að ná góðum árangri fyrir félagsfólk“ skrifar Sólveig Anna. „Gegn ofurefli efnahagslegrar og pólitískrar valdastéttar sem líkust uppvakningum helteknum af yfirstétta-stéttahatri fyrri alda sameinuðust í baráttunni gegn vinnuafli höfuðborgarsvæðisins af sjaldséðri forherðingu. Skemmst er að minnast orða forsætisráðherra sem hafði það eitt að segja eftir 30 mínútna fund með mér, Ísak og Adrian úr samninganefndinni, og Yuuliu, verkfalls-konu og verkfallsverði, þar sem að við röktum málefnalega um hvað deilan snérist, að þar hefði „ekkert markvert“ komið fram, og verkbanns-óra Samtaka atvinnulífins, en íslenskir kapítalistar ætluðu að senda 20.000 Eflingar-meðlimi launalausa burt úr vinnu í refsingarskyni fyrir að tilheyra verkalýðsfélagi með ó-þóknanlegri forystu. Samninganefnd Eflingar þurfti einnig að takast á við hömlulausa baráttu forystu annara verkalýðsfélaga gegn því að tekið yrði tillit til aðstæðna verkafólks á höfuðborgarsvæðinu, en í hugarheimi manna sem að telja sig þess umkomna að leiða hreyfingu vinnandi fólk var sú krafa nokkurskonar glæpur gegn mannkyni sem svara þurfti með sí-tryllingslegri svívirðingum. Svívirðingum sem eins brjálæðislega og það nú hljómar beindust iðulega gegn heiðursmanninum Stefáni Ólafssyni fyrir þann glæp að skilja og útskýra svo efnahagslegar staðreyndir um veruleika okkur á mannamáli og liðsinna með því efnahagslegri réttlætisbaráttu láglaunafólks.

Við í Eflingu bentum ítrekað á að þeir kjarasamningar sem gerðir voru á almenna markaðnum (og svo þröngvað upp á okkur, eftir að við höfðum verið svipt okkar sjálfstæða samningsrétt með samanteknum ráðum Samtaka atvinnulífsins og ríkissáttasemjara, glæpa-aðgerð blessaðri af ríkisstjórninni) væru algjörlega ófullnægjandi til að vernda kjör vinnuaflsins. Við sögðum þetta bókstaflega útum allt; hér á Facebook, í viðtölum við fjölmiðla, í greinum, og svo á torgum og götum úti þar sem að við æptum skilaboðin í gegnum gjallarhorn. Við sögðum að ekki ætti að fórna hagsmunum vinnandi fólks, ekki ætti að fórna kaupmætti vinnandi fólks, ekki að ljúga því að fólki að færri krónur væru betri en fleiri á meðan að auðstéttin graðkaði til sín allar þær krónur sem henni sýndist. Við sögðum að það væri fráleitt að gera ekkert til að tryggja að lífskjör verkafólks yrðu betri á samningstímanum, og að það væri algjörlega fáránlegt að fría stjórnvöld undan allri ábyrgð á tilveru-skilyrðum verkafólks eins og gert var þegar að kjarasamningar voru undirritaðir í desember.
Nú er komið í ljós við höfðum algjörlega rétt fyrir okkur. Það hefði verið best að láta Eflingu leiða samningaviðræður við SA. Best að láta sýn Eflingar á stöðuna ráða ferðinni og meta aðstæður. Best að láta Eflingu krefjast aðgerða frá stjórnvöldum. Ekki aðeins fyrir Eflingar-fólk, heldur allt vinnandi fólk.

Ég á ekki von á því að þetta fáist viðurkennt inn í fundarsölum hreyfingu vinnandi fólks. Þar snúast flestir fundir meira og minna um illsku forystu Eflingar og talsmáta, eða „hatursorðræðu“ eins og það er nú kallað af framvarðasveit SGS. Þar er meira til siðs að barma sér en að berjast, vinsælla að velta sér upp úr vonsku einnar komma-lufsu og félaga hennar en að líta í eigin barm og axla smá ábyrgð.

Ég er stolt af baráttu samninganefndar Eflingar. Ég er stolt af því að við höfðum 100% rétt fyrir okkur. Ég vildi óska þess að við hefðum ekki þurft að slást al-ein. Og ég vona að þegar kemur að því að semja næst við íslenskt auðvald og framkvæmda-nefnd þess í Stjórnarráðinu ákveði fólk að láta Eflingu taka þar forystu og virkja þann eldmóð, þol og baráttugleði sem þarf til að ná góðum kjarasamningum fyrir vinnuafl samfélagsins okkar,“ endar Sólveig Anna pistilinn.

Sólveig Anna fór yfir stöðuna í verkalýðshreyfingunni í Samtali á sunnudegi um verkalýðsmál. Það samtal má sjá og heyra hér:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí