Hilmar Þór Björnsson arkitekt telur að mygla í Melaskóla sé stórlega ofmetin. Á Facebook segir hann að hann gruni að hagsmunaaðilar séu að sjúkdómsvæða hús. Ríkharður Kristjánsson, verkfræðingur hjá RK Design og sá sem kannaði ástand Melaskóla, segir í athugasemd við færslu Hilmars sjaldan hafa heyrt jafn vel gefið fólk láta frá sé jafn mikla vitleysu.
Hilmar hóf deilurnar með færslu í gærkvöldi þar sem hann skrifar: „Nú hafa sérfræðingar verið kallaðir til að leita að myglu i Melaskóla.Skólabyggingin er að verða áttræð og hefur staðið af sér allar húsasóttir þar til nú. Nú gera menn sér að starfi og tekjulind að leita að myglu í húsum, jafnvel í okkar albestu og vönduðustu byggingun og finna hana.“
hann grunar að menn sjái viðskiptatækifæri í að leita að sjúkdómumm. „Það er einhvernvegin þannig að menn finna yfirleitt það sem þeir leita að og nú sjá menn viðskiptatækifæri í að leita að sjúkdómum og finna þá og bjóða siðan þjónustu sína og sérþekkingu til að lækna þá. Ég held að hér sé vandamál á ferðinni en grunar að það séu hagsmunaaðilar sem gera meira úr þeim en tilefni er til og eru að sjúkdómavæða húsin og finna sér verkefni. Það er mygla allstaðar og meira að segja í ísskápum okkar flestra. Ég held við eigum taka þessu rólega og anda með nefinu.“
Margir hafa skrifað athugasemd við færslu Hilmars og sitt sýnist hverjum. Það má segja að Ríkharður Kristjánsson sé sérfræðingurinn sem Hilmar gagnrýnir í færslunni, enda sá sem kannaði ástandið í Melaskóla. Hann skrifar:
„Sjaldan hef ég heyrt jafn marga jafn vel gefna aðila láta frá sér jafn mikla vitleysu. Ég byggði upp þessa ráðgjöf á Eflu með Sylgju og fleirum. Bakgrunnurinn var neyð fólks í íslenskum byggingum, barna í skólum landsins íbúa í 50 húsum fyrir austan sem ég lét rífa og endurgera þökin á. Og okkur var ekki hleypt inn í skólana í Reykjavík fyrr en foreldrar barnanna gerðu uppreisn og heimtuðu það. Það væri hins vegar mjög spennandi ef arkitektar landsins íhuguðu og ræddu bakgrunn vandans á aðeins hærra og fræðilegra plani.“