Ríkið býður opinberum starfsmönnum SGS-samninginn

Samningafundur byrjaði í morgun í karphúsinu milli ríkisins og heildarsamtaka opinberra starfsmanna, BSRB, BHM og Kennarasambandsins, og reiknað er með að hann standi til kvölds. Lítið hefur þokast í þessum viðræðum. Ríkið vill að opinberir starfsmenn sætti sig við þann ramma sem samningur Starfsgreinasambandsins mótaði, en heildarsamtökin eru ekki á þeim buxunum.

Í fyrsta lagi gera BSRB, BHM og KÍ kröfur um að staðið verði við samkomulag frá september 2016 þar sem ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin skuldbundu sig til að jafna launamun milli markaða á innan við áratug. Ríkið vill nú semja til jafns langs tíma og Starfsgreinasambandið gerði, sem myndi leiða til þess að næstu samningar losnuðu um mitt sumar 2024. Þá er bara eitt og hálft ár eftir af loforðinu og óralangt í land að ríkið og sveitarfélögin hafi staðið við loforð sín.

Opinberir starfsmenn geta því ekki sætt sig við skammtímasamning þar sem öllum stærri ágreiningsmálum yrði kastað inn í framtíðina. Þetta á líka við um styttingu vinnutímans, en skref voru stigin í síðastu samningum en félögin gera nú kröfur að önnur skref verði stigin nú og annmarkar sniðnir af þar sem styttingin gekk ekki eftir eða illa.

Samtökin eru því ekki tilbúin að ýta þessu til hliðar og gera samning í anda þess sem Starfsgreinasambandið og iðnaðar- og verslunarmenn gerðu. En þau eru heldur ekki sátt við þá samninga. Ef þeir samningar voru ásættanlegir í nóvember á síðasta ári þarf svo alls ekki að vera í dag.

Allar forsendur hafa breyst. Þegar samið var í nóvember var verðbólguhraðinn samkvæmt hækkun neysluvísitölunnar síðustu þrjá mánuðina 4,2%. Hraðinn er nú 12,2%. Og ef við sleppum húsnæðisliðnum er breytingin enn meiri, frá 3,3% upp í 14,6%.

Grunnhækkunin í samningi iðnaðar- og verslunarmanna var 6,75%. Það segir sig sjálft að ef hægt var að sætta sig við þá hækkun þegar verðbólguhraðinn var 4,2% þá er þessi hækkun líklega óásættanleg við 12,2% verðbólguhraða.

En þarna stendur hnífurinn í kúnni. Ríkið vill fá BSRB, BHM og KÍ til að sætta sig við ramman sem kom úr samningum SA við ASÍ-félögin. Opinberir starfsmenn segja að það sé hægt að skoða það ef stór skref verði stigin til að jafna laun og stytta vinnutíma. En ríkið segir nei, það sé almenni markaðurinn sem eigi að leggja línurnar. Og opinberir starfsmenn að sætta sig útkomuna.

Samningar losna í lok þessa mánaðar. Það er því ekki enn komin afgerandi tímapressa. Hún er frekar frá ríkinu en verkalýðshreyfingunni. Bjarni Benediktsson þarf að skila nýrri fjármálaáætlun fljótlega og það er erfitt með samninga lausa í stöðu þar sem allar forsendur er að snúast. Og því lengur sem beðið er, því augljósara verður að forsendur samningana fyrir jól eru brostnar. Vextir munu verða hækkaðir seinna í mánuðinum og verðbólgutölur fyrir mars verða litlu skárri en í febrúar.

Yfir þessu situr fólk í karphúsinu. Og þaðan berast engar bylgjur bjartsýni.

Myndin er af Magnúsi Þór Jónssyni formanni KÍ, Sonju Ýr Þorbergsdóttur formanni BSRB og Friðrik Jónssyni formanni BHM.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí