„Ríkiseignum er ennþá stolið í stórum stíl líkt og fyrir hrun“

„Enn lyppast Vinstri græn niður og hjálpa Sjálfstæðisflokknum að halda upplýsingum frá þjóðinni. Næsta skref verður að þingflokksformaðurinn éti ofan í sig loforðið frá því í fyrravor um að skipa rannsóknarnefnd um Íslandsbankasöluna.“

Þetta skrifar Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, á Facebook síðdegis í dag. Hann er einn af mörgum sem stinga niður penna vegna Lindarhvolsmálsins. Fyrr í dag hafnaði meirihluti Alþingis að leyfa Jóhanni Páli Jóhannssyni þingmanni Samfylkingarinnar að leggja fram fyrirspurn um innihald greinargerðar fráfarandi setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, hefur komið í veg fyrir að skýrslan hafi verið birt.

Annar prófessor, Þorvaldur Gylfason, skrifar einnig um málið og segir þetta minna á starfshætti Pútíns í Rússlandi. 

„Dúman við Austurvöll heldur áfram að delera. Það verður varla hátt á þeim risið þegar skýrsla fv. ríkisendurskoðanda verður birt — sem hún verður. Kjarni málsins er augljós: ríkiseignum er ennþá stolið í stórum stíl líkt og fyrir hrun og það verður auðvitað allt saman dregið fram í dagsljósið eins og gert var í Rússlandi. Allir fjölmiðlarnir nema Morgunblaðið eru staðráðnir í að fletta ofan af gripdeildunum. Þeim mun takast það. Staða þeirra væri að vísu sterkari ef nýja stjórnarskráin með sínu upplýsingafrelsisákvæði væri orðin að landslögum, en það skiptir þó ekki sköpum nú. (Fyndnast þykir mér að einn nv. dómari í Hæstarétti sat í stjórn Leyndarhvols.),“ skrifar Þorvaldur.

Þór Saari, fyrrverandi þingmaður, skrifar einnig um málið innan Facebook-hóps Sósíalista. Hann tekur í svipaðan streng og Þorvaldur. „Þetta er alveg með ólíkindum. Fjármálaráðherra, ráðuneyti hans og starfsmenn þess liggja undir grun um að hafa verið meðsekir í því að stela ríkiseignum í Lindarhvolsmálinu og krefjast þess að skýrsla fyrrverandi Ríkisendurskoðanda um málið verði ekki birt. Alþingi er með skýrsluna undir höndum en forseti Alþingis Birgir Ármannsson hefur alræðisvald í forsætisnefnd og neitar að upplýsa um innihaldið. Meirihluti þingmanna á Alþingi, þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri-grænna, taka þátt í þessari yfirhylmingu.“

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí