Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari og áður stjórnarmaður í verðbréfafyrirtækinu Arctica Finance, fékk tæplega 250 milljónir króna afskrifaðar hjá skilanefnd Glitnis árið 2011. Afskriftin var vegna útistandandi skuldar Ástráðs við Glitni vegna framvirkra samninga með skuldabréf Kaupþings. DV greindi frá þessu árið 2012 en upp komst um afskriftina eftir að gögnum frá skilanefnd Glitnis var lekið til fjölmiðilsins.
Ástráður starfar sem héraðsdómari í dag en var skipaður ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og SA á dögunum. Fyrr í dag lagði hann fram miðlunartillögu í sátt við Samtök atvinnulífsins og Eflingar. Tillagan felur í sér það sama og tillaga Aðalsteins Leifssonar áður.
Ástráður neitaði því á sínum tíma að hann hafi fengið afskrifað hjá Glitni. „Ég hef ekkert fengið afskrifað, ekkert fengið afskrifað,“ sagði hann við DV og hélt svo áfram:
„Ég átti ákveðin viðskipti við Glitni og það var deilt um hvert væri rétt uppgjör þessara viðskipta. Ég taldi að rétt uppgjör viðskiptanna væri að Glitnir skuldaði mér fé en þeirra afstaða var sú að ég skuldaði þeim fé. Niðurstaðan af þessu öllu saman, fyrir milligöngu lögmanns á mínum vegum, var að samið var um uppgjör viðskiptanna. Í því fólst ekki afskrift á kröfum á mig, ekki samkvæmt minni skoðun. Þetta er þannig að ef ég held að þú skuldir mér 100 milljónir og þú heldur að ég skuldi þér 100 milljónir og við semjum síðan um einhverja niðurstöðu í málinu þá getur hvor okkar um sig haldið því fram að hann hafi afskrifað eitthvað á hinn.“
Glitnir deildi ekki þessu sjónarmiði og leit svo á að Ástráður hefði fengið rúmlega 248 milljónir króna voru færðar til afskriftar vegna viðskiptanna við Ástráð.