Sendur verkjalaus undir hnífinn

Árið 2017 hafði Jón Örn Pálsson gengið í gegnum mjaðmaskipti og var komin á lappirnar og farinn að taka á því í ræktinni, sinna hestum og járna þegar liðþófinn í hnénu sagði til sín. Eftir óþarfa aðgerð stendur hann frammi fyrir því rúmum sex árum síðar að þurfa gervihné.

Jón hefur alltaf verið líkamlega virkur og stundað fjallgöngur og líkamsrækt en hann var staddur í ræktinni þegar hann fann eitthvað smella í hnénu á sér. Hann varð mjög verkjaður og var ráðlagt að hitta lækni í Orkuhúsinu. Þar var hann ómaður og kom í ljós rifa á liðþófa. Skurðlæknirinn gaf honum smá bleðling um liðþófaaðgerðir þar sem ekkert var minnst á fylgikvilla en hann fékk einnig tíma í aðgerð tæpum tveimur mánuðum síðar.

Þegar líða tók að aðgerðartímanum var Jón orðinn verkjalaus í hnénu og sendi lækninum tölvupóst þar sem hann spyr hvort nokkur ástæða sé til að fara í aðgerðina því hann sé orðinn verkjalaus. Jón bjó á Tálknafirði á þessum tíma en þegar hann kemur í bæinn er læknirinn algjörlega á því að spegla á honum hnéð í aðgerð þrátt fyrir verkjaleysið. Hann segir honum að svona verkir gangi í bylgjum og að hann verði kominn aftur til hans fyrr en vari svo best sé að framkvæma aðgerðina. Þegar aðgerðin fór fram voru Jón gefnar töflur og hann svo látinn kvitta upp á eitthvert blað sem hann náði aldrei að lesa. Læknirinn lofaði honum að hann yrði kominn til vinnu strax eftir helgi því þetta væri svo minniháttar aðgerð.

Eftir aðgerðina er Jón mjög kvalinn en læknirinn segir honum í síma að þetta sé líklega blæðing. Hann ráðleggur honum að kaupa teygjubindi og skrifar upp á verkjalyf. Jón Örn fer þó fram á að hitta hann áður en hann fer aftur vestur og með semingi gefur læknirinn honum tíma daginn eftir. Jón þurfti þó aða bíða eftir honum þar í tvo tíma. Eftir skoðunina er niðurstaðan sú sama, læknirinn telur hann vera með blæðingu og ráðleggur honum að vefja þétt um hnéð með teygjubindi. Svo skrifar hann uppá sterkt verkjalyf (Oxycontin) sem honum er sagt að taka eftir þörfum. Við það er hann sendur heim á Tálknafjörð og á bara að harka þetta af sér.

Jón fer heim en á áttunda degi eftir aðgerð var hann enn mjög kvalinn og orðinn svo bólginn að hann komst ekki í skó. Hann komst þó einhvern veginn í flug Suður og mætir upp á á bráðamóttöku. Hjúkrunarfræðingurinn þar þurfti bara að sjá hann til að sjá að hann væri með bullandi sýkingu en sú ferð endaði með 7 vikna sjúkrahúsvist. Skolað var út úr hnénu og honum gefið sýklalyf í æð.

Hnéð er í dag ónýtt og borðleggjandi samkvæmt lækni að Jón Örn þarf að fá gervihné. Hann gengur með spelku og er að reyna að harka af sér þar til hann neyðist til að fara í þá aðgerð.

Jón Örn tilkynnti málið til Landlæknis en hann er afar ósáttur við meðferðina og að læknirinn hafi ekki einu sinni tekið blóðprufu úr honum þegar hann hitti hann daginn eftir aðgerð. Hann kærði aðgerðina og átti hann bótarétt á grundvelli sjúklingatrygginga en Jón varð fyrir verulegu fjárhagstapi þar sem hann m.a. missti verktakasamning, getur ekki gengið á fjöll eða sinnt hestamennskunni núna fimm árum síðar. Landlæknir hefur þó ekki viðurkennt að um læknamistök eða vanrækslu hafi verið að ræða.

Landlæknir birti skýrslu um mat sitt á tíðni liðþófaaðgerða í einkarekinni þjónustu árið 2017 (á meðan Jón lá inni) og þar kemur fram að liðþófaaðgerðir á einstaklingum yfir fimmtugu séu í besta falli árangurslausar og þær flýti jafnvel fyrir þörf á liðskiptaaðgerðum. Þá er tíðni aðgerða hér á landi mun algengari en annars staðar í Skandinavíu.

Jón Örn vill fá einhvern til að skoða sín gögn því það þurfi að brjóta þetta kerfi upp innan frá.  „Manni svíður það þegar sjúkrastofnanirnar okkar eru fjársveltar en svo eru einkastofurnar þarna með höndina í nammikrúsinni. “ segir Jón

María Pétursdóttir ræddi við Jón í Rauða borðinu fimmtudaginn 23. mars þar sem Jón Örn rekur sögu sína og þau velta fyrir sér oflækningum, upplýsingaskyldu og eftirmeðferð einkarekinna sjúkrastofnana.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí