„Það væri gott ef stjórnvöld horfðu lengra en nokkra mánuði fram í tímann – að atvinnuvegirnir, menntakerfið, fjármálalífið og allir innviðir landsins spiluðu saman. En það eru yfirleitt stærstu hagsmunaaðilar á hverjum tíma sem ráða mestu,“ segir Gylfi Zoega prófessor í hagfræði í viðtali sem Óðinn Jónsson tekur í Túrista.
Gylfi segir að þau sem tala fyrir hönd ferðaþjónustannar og lýsa mikilvægi hennar fyrir þjóðarhag gefi ekki upp alla myndina.
„Það verður líka að hugsa um hversu miklir fjármunir fara úr landi – allur tilkostnaðurinn og erlenda vinnuaflið. Svo bætast við útgjöld vegna vegakerfis, uppbygging innviða, álag á heilbrigðiskerfið,“ segri Gylfi.
„Þú verður að reikna allt dæmið. Hættan er sú að ef að menn gæta ekki að öllum ytri áhrifum þá verður niðurstaðan sú að Ísland fer frá því að vera spennandi staður yfir í það að vera ofsetið af túristum, sem fara að flækjast hver fyrir öðrum og segja loks: Ísland er bara túristagildra og okurbúlla! Fólk kemur þá bara einu sinni. Vill ekki koma aftur. Þá sætum við uppi með mörg hótel sem þyrftu að selja þjónusta á lágu verði með ódýru vinnuafli. Betra væri að stemma stigu við fjölgun túrista til að styðja viðvarandi bætta afkomu ferðaþjónustunnar – í stað þess að reyna að hagnast sem mest í náinni framtíð og horfa síðan fram á að eftir fimm ár verði ævintýrið búið, sem er þessi venjulegi ferill sem hér hefur tíðkast í ýmsum öðrum atvinnugreinum.“
„Það er mjög gott að hafa eina stoð til viðbótar,“ segir Gylfi. „Ferðaþjónustan hefur góð áhrif á byggðir landsins. En það verður að gæta þess að ferðaþjónustan verði ein af mörgum stoðum en taki ekki allt yfir. Það eru ekki aðeins loftslagsmálin og umhverfisáhrifin sem þarf að hafa í huga heldur er hætta á að við skemmum fyrir okkur með troðningstúrisma og að álagið verði of mikið á kerfi okkar og innviði: vegina, heilbrigðiskerfið.
Þá þurfum við líka að huga að því sem þjóð að innflutt vinnuafl er orðið um 20 prósent af heildarfjölda. Einhvern tímann kemur að því að núningur verður þarna á milli. Maður hefur sérstaklega áhyggjur af fyrstu kynslóðar Íslendingum í úthverfum höfuðborgarsvæðisins. Þessi börn virðast ekki standa sig eins vel í skóla og önnur. Eins og gjarnan er um innflytjendur af fyrstu kynslóð, þá eru þessi börn full metnaðar en rekast á einhverja veggi – detta út úr skóla. Það verður að passa upp á þetta. Huga að aðlögun þessa fólks. Gæta verður þess að samsetning íbúa í landinu breytist ekki svo hratt að þjóðfélagið ráði ekki við að tryggja aðlögun allra.”
Viðtalið er í heild á turisti.is þar sem ákrifendur hafa aðgang að því. Óðinn Jónsson tók myndina.