„Af minni reynslu sem starfsmaður á Landspítalanum er oftar en ekki fólk í stjórnarstöðu sem ýtir undir að heilbrigðiskerfið fái að rotna í friði.“ Þetta segir uppljóstrari innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi í nafnlausri frásögn sem birtist innan Facebook-hópsins Rétturinn til að lifa. Markmið hópsins er að greina frá sögum af mannréttindabrotum í íslenska heilbrigðiskerfinu. Ljóst er að slíkar sögur eru mýmargar en hópurinn hefur vaxið hratt.
Hér fyrir neðan má lesa frásögn starfsmannsins, sem segist bæði hafa starfað á Landakotsspítala sem og Landspítalanum.
Ég vann í stuttan tíma á Landakotsspítala og einn daginn var eldri kona sem þurfti aðstoð við að fá lyf í gegnum súrefnisgrímu. Ófaglærður starfsmaður sem talaði ekki íslensku sat hjá henni og var í símanum á meðan þurfti starfsmaðurinn að styðja við grímuna en konan var á sama tíma að reyna að taka grímuna af sér.
Starfsmaðurinn þrýsti grímunni á hana og hélt áfram í símanum. Ég ræddi þetta við deildarstjórann og fékk þau svör að við lifum á símaöld og það eru allir í símanum. Þessi starfsmaður fékk ekki áminningu og þetta var ekki rætt. Ég var nemi á þessum tíma og ræddi við skólann minn sem óskaði eftir fundi með deildarstjóra og mér en þrátt fyrir fundinn var þessu sópað undir teppið.
Einnig var lamaður maður á sömu deild sem var oft ekki tekinn framúr rúminu á matartímum vegna þess að það var talið of mikið vesen.
Af minni reynslu sem starfsmaður á Landspítalanum er oftar en ekki fólk í stjórnarstöðu sem ýtir undir að heilbrigðiskerfið fái að rotna í friði
Hér má finna fyrrnefndan hóp, Rétturinn til að lifa, og lesa fleiri sögur af hrörnandi heilbrigðiskerfi.