Nýjar tölur úr kynningu frá lokuðum fundi Evrópska seðlabankans með þjóðarleiðtogum sýna að aukinn hagnaður fyrirtækja hafi verið stærsta skýring verðbólgunnar fram að þessu og gnæfir yfir áhrif launahækkana. Á blaðamannafundi fyrir skömmu minntist seðlabankastjórinn Christine Lagarde fjórtán sinnum á launaliðinn en talaði ekkert um rentusækni eða ofurhagnað fyrirtækja.
Seðlabankar tala gjarnan máli atvinnuveitenda og fjármálageirans. Hér er komið skýrt dæmi um það. Daniela Gabor, sérfræðingur í þjóðhagfræði, vill meina að orðræða Evrópska seðlabankans hafi afvegaleitt umræðuna um verðbólguna. Áherslan hafi bjagast og umræðan laskast.
Grafið hér að ofan sýnir undirliði verðbólguþrýstings. Glæruna er að finna í kynningunni frá fundinum sem hefur ratað í hendur fréttastofu Reuters. Kallað hefur verið eftir því að Evrópski seðlabankinn geri gögnin aðgengileg fjölmiðlum.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sýnt fram á að verðbólgan í dag er ólík þeirri sem geisaði á áttunda áratugnum þar sem launaliðurinn hækkaði verðlag og orsakaði spíral hækkana. Hlutur vinnuafls í evrópska hagkerfinu var hærri á þessum tíma. Annað er uppi á teningnum í dag en þá.
Staðan hér sú sama
Þetta rímar við nýlega samantekt BHM á ársreikningum fyrirtækja en samkvæmt þeim eru fyrirtæki að nýta sér verðbólguna sem skjól til að hækka verð og auka framlegð – og þar með hagnað. Síðustu tvö ár hafa verið metár í sögu íslensks atvinnulífs, á sama tíma og heimilin þreyja þorrann í dýrtíðinni.
Í fundargerð frá síðasta fundi peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands eru einmitt líka fjórtán tilfelli af orðinu „laun“ og tengdum orðum. „Hagnaður“, „samkeppni“ og „renta“ eru hvergi nefnd. „Arðsemi“ er einu sinni nefnd en þá í samhengi við kerfislega mikilvæga banka (Arion, Landsbanka, Íslandsbanka) og því fagnað hversu vel þeim gengur.