Verktakar hæðast að ungu fólki

Þrátt fyrir öllum sé ljóst að hátt verð á íbúðum vegna hárrar álagningar byggingarverktaka, hækkandi vaxta og harðnandi lánakjara valdi því að ungt fólk ráði ekki við að kaupa nýjar íbúðir eru myndir af ungu barnafólki notaðar í fasteignaauglýsingum til að gera hinar rándýru íbúðir manneskjulegri.

Auglýsingarnar flagga í raun fórnarlömbum ónýtrar húsnæðisstefnu, nota þau til að breiða yfir ómanneskjulegt kerfi. Í Morgunblaðinu í dag auglýsir Eignamiðlunin íbúðir í því sem kallað er Vesturvin, klasa af íbúðablokkum á Héðinsreitnum við Ánanaust. Þar er teiknað inn ungt fólk þótt ljóst sé að þessar íbúðir séu allt of dýrar fyrir ungt fólk. Líklegast er að þessar íbúðir verði keyptar af efnaðra barnlausu fólki og efnuðum leigusölum, sem munu leigja þær á verði sem ungt barnafólk með þunga framfærslu ræður ekki við.

Þetta hefur orðið raunin í flestum þeim blokkum sem byggðar hafa verið á þéttingarreitum í miðborginni á undanförnum árum og áratugum. Það heyrist varla barnsgrátur í svörtu auðmannablokkunum við Skúlagötu, nema þegar barnabörnin koma í heimsókn. Eða barnabarnabörnin. Það eru heldur ekki mörg börn sem búa í rándýrum íbúðunum við Reykjavíkurhöfn.

Á síðustu áratugum hefur ójöfnuður ekki aðeins aukist milli stétta heldur líka kynslóða. Ungt fólk í dag stendur lakar efnahagslega í samanburði við kynslóð foreldra sinna en verið hefur frá því um miðja síðustu öld. Þetta er ekki aðeins þróunin hérlendis, heldur um allan heim.

Þetta er ein af afleiðingum niðurbrots tekjujöfnunar skattkerfis velferðarríkisins. Með því að hafa skattlagningu stigvaxandi svo skatthlutfallið aukist eftir því sem tekjur verða hærri og eignir meiri og nýta síðan þetta skattfé til að bæta stöðu þeirra sem eru tekjulægri og eiga minna, er verið að færa fé milli stétta en þó fyrst og fremst milli kynslóða.

Síðmiðaldra fólk er almennt tekjuhærra en yngra fólk, á meiri eignir, skuldar minna og hefur léttari framfærslu. Yngra fólk er almennt tekjulægra, á minna, skuldar meira og hefur þyngri framfærslu. Til að jafna þarna á milli voru því hærri skattar á miklar tekjur og eignir, almennt hærra skatthlutfall á hin eldri og efnameiri. Og þessu fé var svo fleytt til hinna yngri og efnaminni með barnabótum, vaxtabótum og öðrum húsnæðisstuðningi, námslánum á lágum vöxtum eða námsstyrkjum og með öðrum hætti til að jafna tekjur og framfærslubyrði milli kynslóða.

Þetta er í raun sama kerfi og gilti innan mennta- og heilbrigðiskerfisins. Þessi kerfi voru fjármögnuð með almennum stighækkandi sköttum. Með þeim hætti borgið þið fyrir menntunina eftir á, þegar þið eruð komin út á vinnumarkaðinn. Og fyrir heilbrigðisþjónustu þegar þið eruð hraust, ekki þegar þið veikist og þurfið á aðgerð, lyfjum eða umönnun að halda, þegar tekjur ykkar hafa fallið þegar þið eruð veik og lasburða.

Þetta kerfi var brotið niður á nýfrjálshyggjutímanum. Eignaskattar eru líklega besta leiðin til að færa auð milli kynslóða en þeir voru aflagðir hér snemma á öldinni, eftir að hafa verið stoð í skattkerfi landsmanna frá því að tíundin var tekin upp árið 1097. Í dag er skatthlutfall hinna tekjuhæstu á við það sem fólk með lægri miðlungstekjur borgar. Þau tekjuhæstu borga ekki hærra skatthlutfall en aðrir heldur lægra en meginþorri fólks. Og barnabótakerfið hefur verið veikt, nær ekki að vera tilfærsla milli kynslóða heldur aðeins veikur tilflutningur milli stétta. Og vaxtabótakerfið hefur verið leikið enn verr. Í raun má segja að enginn fái vaxtabætur sem getur staðist greiðslumat, þið þurfið að vera svo tekjulág og blönk til að standast kröfurnar um bæturnar að bankarnir meiga ekki lána ykkur.

Með niðurbroti tekjujöfnunar skattkerfisins var búinn til ójöfnuður kaupenda á fasteignamarkaði. Annars vegar styrktist kaupgeta síðmiðaldra fólks, sem varð stöndugt af skattafslætti til hinna tekjuhærri og eignameiri. Hins vegar veiktist kaupgeta hinna yngri sem misstu millifærslurnar úr bótakerfinu og fengu yfir sig almenna skattahækkun launafólks sem sett var á til að fjármagna skattalækkanir til eignafólks, sem naut lækkunar fjarmagnstekjuskatts og afnáms eignaskatts. Og í ofan á lag voru iðgjöld í lífeyrissjóði hækkuð, sem er flöt skattheimta til að fjármagna eftirlaun og er þyngri byrði eftir því sem tekjurnar eru lægri.

Byggingarverktaka og lóðabraskara hefur aðlagað sig að þessum samfélagsbreytingum. Þeir byggja rándýrar íbúðir sem hin stönduðugu og síðmiðaldra ráða við að kaupa. Og leggja svívirðileg álagning á þessar íbúðir, eins og vanalega er gert þegar vara er búin til fyrir velstætt fólk. BHM benti á í vikunni að álagning á íbúðir er um og yfir 100%. Í vikunni benti fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans á að hlutfall fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu af byggingakostnaði sé nú með hæsta móti. Sem merkir að álagning ofan á raunverulegan kostnað sé of há.

Þetta sést vel þegar verðlistinn yfir íbúðir í Vesturvin er skoðaður. Þarna er fermetarverðið hátt í milljón krónur. Sem er líklega vel yfir tvöfaldur byggingakostnaður, hið minnsta. Ef ungt fólk myndi kaupa íbúð þarna fyrir tvöfalt framleiðsluverð væri það svo til ævina á enda að borga eigendum þessara bygginga þessa álagningu, kannski 200 þús. kr. á mánuði aukalega í 40 ár. Það gera 96 m.kr. á núvirði. Sem er álagningin sem verktakar og lóðabraskarar geta lagt á fólki í krafti þess að þeim hefur verið gefið drottnandi staða á húsnæðismarkaði.

Eigandi Vesturvinar er Ólafur Ólafsson, eigandi Samskipa og fyrrum stærsti eigandi Kaupþings, maður sem auðgaðist á að að sölsa undir sig eignir samvinnuhreyfingarinnar þegar Sambandið var leyst upp.

Myndin er hluti auglýsingar um íbúðir til sölu á Héðinsreitnum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí