Þann 12. maí næstkomandi heldur Háskóli Íslands alþjóðlega ráðstefnu í tilefni starfsloka Hannesar H. Gissurarsonar. Nokkur fjöldi hægrimanna heldur erindi til að hylla Hannes á Háskólatorgi, þar með taldir þrír síðustu forsætisráðherrar úr röðum Sjálfstæðisflokksins. Ráðstefnunni er skipt í tvo hluta en í þeim fyrri eru stjórnmálamenn áberandi meðan í þeim seinni eru hægrisinnaðir háskólamenn algengari. Svo heldur Kjartan Gunnarsson veislu.
Fyrstur í pontu verður helsti velgjörðarmaður Hannesar, Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins. Davíð hyggst ræða eigin ágæti, en erindi hans heitir: „The 1991–2004 Reforms in Iceland: Liberalisation and Stabilisation“.
Á eftir Davíð heldur Barbara Kolm erindi en hún er austurrískur hagfræðingur og stjórnmálakona. Hún hefur einnig tekið þátt í stjórnmálum á vegum austurríska Frelsisflokksins, hægriöfgaflokks sem var stofnaður af fyrrverandi nasistum eftir seinni heimsstyrjöld. Kolm vakti athygli í Austurríki árið 2018 þegar hún barðist gegn reykingarbanni á veitingastöðum en svo kom á daginn að stofnunin sem hún starfaði fyrir hafði hlotið styrki frá sígarettuframleiðendum. Erindi Barböru við HÍ heitir: „Sound Money in Europe: The Search for Monetary Stability.“
Á eftir henni kemur annar fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, og virðist hann einnig ætla að ræða eigin ágæti. Erindi hans ber nafnið: „The Unique Icelandic Response to the 2007–9 Financial Crisis.“
Því næst ætlar Bruce Caldwell, bandarískur prófessor, að halda erindi um austurríska hagfræðinginn Friedrich von Hayek, einn helsta hugsuð frjálshyggjumanna.
Svo kemur í pontu Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Líkt og Geir og Davíð þá ætlar Bjarni að ræða um hrunið. Þó ekki um aðdraganda þess. Erindi Bjarna heitir: Lessons from Iceland’s Rapid Recovery after the Bank Collapse.
Svo kemur enn annar frá Austurríki, þó með krókaleiðum, til að halda erindi. En það er Gabriela von Habsburg, barnbarn Karls fyrsta, síðasta keisara Austurríkis. Hún fæddist í Lúxemburg og ólst upp í Bæjarlandi í Þýskalandi, en ætt hennar var burtrekin frá Austurríki eftir fyrri heimsstyrjöld. Síðar varð hún sendiherra Georgíu til Þýskalands og er erindi hennar einmitt um það land: The Country at the Other End of Europe: Georgia.
Þá er komið að stuttu kaffihléi en fyrstur í pontu í seinni hluta ráðstefnunnar er Þráinn Eggertsson, prófessor emeritus við hagfræðideild. Það má segja að hann sé bandamaður Hannesar við háskólann, í það minnsta hefur Hannes lofað hann bak og fyrir í fróðleiksmola sem birtist í Morgunblaðinu. Erindi Þráins heitir: The Impact of Mental Models on Icelandic History.
Næstur er prófessor Stephen Macedo frá Bandaríkjunum en hann er hægrisinnaður stjórnmálaprófessor við Princeton-háskóla. Hann, líkt og Hannes, virðist aðdáandi Friedrich von Hayek. Erindi Macedo heitir: The Threat to Freedom of Thought from Right and Left.
Á eftir honum kemur gamall félagi Hannesar, sagnfræðiprófessorinn Þór Whitehead. Þór var ásamt Hannesi í Eimreiðarhópnum, hópur karla sem var kenndur við tímaritið Eimreiðina sem boðaði hugmyndir frjálshyggju á Íslandi á áttunda áratugnum. Þór ætlar að halda erindi um Ísland, Churchill, og Roosevelt.
Næst kemur kona sem stingur nokkuð í stúf, í það minnsta í fljótu bragði. Það er Neela Winkelmann frá Tékklandi. Hún er efnafræðingur og var meðlimur í tékkneska Græningjaflokknum upp úr aldamótum. Hún ætlar þó ekki að ræða orkuskiptin. Winkelmann starfaði sem forstöðumaður Evrópuvettvangs minningar og samvisku, samtaka sem hafa helst vakið athygli fyrir að leggja nasisma og kommúnisma að jöfnu. Winkelmann virðist einmitt ætla að gera það því erindi hennar heitir: Totalitarianism in Europe: Communism and Nazism.
Svo kemur önnur kona í pontu sem virðist ætla að höggva í sama knérunn. Yana Hrynko, safnstjóri þjóðarmorðssafnsins í Kænugarði, en hún ætlar að halda erindi sem ber heitið Another Genocide? Russia and Ukraine.
Annar bandamaður Hannesar við Háskóla Íslands heldur svo erindi, Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands. Ragnar er einn aðalhöfundur kvótakerfisins. Hann ætlar einmitt að ræða það kerfi en erindi hans heitir How can Fisheries be both Profitable and Sustainable?
Rússínan í pylsuendanum er svo hægrimaðurinn Tom G. Palmer en hann hefur starfað fyrir hina afar umdeildu hugveitu kennda við Kató. Hann hefur komið víða við yfir ævina en líklega hefur hann haft mest áhrif þegar hann barðist fyrir því að mega eiga skammbyssu á heimili sínu. Málið fór fyrir hæstarétt í Bandaríkjunum og vann Palmer málið. Erindi hans við Háskóla Íslands heitir The Strategy of Liberty in an Age of Uncertainty.