Íbúar í Kópavogi eyða ríflega 30 milljónum króna á ári í eina manneskju, bæjarstjórann og oddvita Sjálfstæðisflokksins, Ásdísi Kristjánsdóttur. Á sama tíma er boðaður sparnaður af leggja niður Héraðsskjalasafn og að reka fólk í menningarhúsum bæjarins ekki nema um 48 milljónir króna á ársgrundvelli.
Í fyrra var greint frá því að nýr bæjarstjóri í Kópavogi, Ásdís, myndi fá ofurlaun. Samkvæmt drögum að ráðningarsamningi við hana nema mánaðarleg laun hennar 2.380.021 krónum. Auk þessara launa fær Ásdís greiddan útlagðan kostnað vegna nota bílsins sem nemur 1.250 kílómetrum á mánuði, eða 158.750 krónur, en akstursstyrkurinn er skattfrjáls. Það þýðir að laun hennar eru á ársgrundvelli tæplega 30 og hálf milljón króna. Rétt er að draga athygli að því að þarna er gert ráð fyrir að Ásdís keyri 60 kílómetra á dag.
Í fyrradag var greint frá því að Kópavogsbær hyggðist leggja niður Héraðsskjalasafn bæjarins. Fleiri breytingar má þó finna í svokölluðum „Tillögum bæjarstjóra Kópavogs að nýjum sóknarfærum í starfsemi menningarhúsanna“, sem hafa verið samþykktar. Þar má til að mynda sjá að til stendur að reka bókaverði hjá Bókasafni Kópavogs. Nánar tiltekið: „Þá mun aukin áhersla á sjálfsafgreiðslu leiða til þess að stöðugildum bókavarða hjá Bókasafninu fækkar um 1,85“.
Enn fremur á reka fólk hjá Náttúrufræðistofu, þar sem leggja á niður rannsóknarstofuna. Þar minnsta enn eitt „sóknartækifæri“ því „stöðugildum fækkar um 2,25“. Safneign Náttúrufræðistofu, fræðsla, miðlun og rannsóknir á henni færast undir forstöðumann Gerðarsafns. Þar fjölgar stöðugildum, vegna fyrrnefnds samruna.
Heildarsparnaður af öllu þessu, og meira til, er ekki ýkja mikill ef hann er settur í samhengi við ofurlaun Ásdísar. „Með nýrri nálgun á þjónustu og starfsemi stofnana og aukinni samþættingu milli stofnana fer heildarfjöldi stöðugilda úr því að vera u.þ.b 33 í 29. Áætluð áhrif á rekstur eru um 20 milljónir króna á árinu 2023 en ríflega 48 milljónir króna á ársgrundvelli,“ segir í tillögum hennar.