Nú undir kvöld, þegar öll atkvæði hafa verið talin, er ljóst að hægriflokkarnir Sannir Finnar og Íhaldsflokkurinn eru sigurvegarar þingkosninga í Finnlandi. Sanna Marín, fráfarandi forsætisráðherra og formaður Jafnaðarmanna, hefur nú þegar lýst yfir ósigri mið-vinstri ríkisstjórnar sinnar. Á meðan lýsti formaður Íhaldsmanna, Petteri Orpó, yfir feiknarsigri, nú þegar flokkur hans er orðinn sá stærsti á Finnlandsþingi.
Riikka Purra, formaður, glöð í bragði á kosningavöku Sannra Finna. Flokkurinn fékk sína bestu kosningu nú, ríflega 20 % fylgi og 46 þingmenn kjörna.
Eftir kosningar standa Íhaldsmenn með pálmann í höndunum og geta valið um það hvort þeir halli sér að Sönnum Finnum, hægri popúlístaflokki sem berst einna mest fyrir skattalækkunum og harðari útlendingalöggjöf eða myndi stjórn yfir miðju með mildari ásýnd í samstarfi við jafnaðarmannaflokk Sönnu Marínar.
Á hvorn veginn sem fer virðist næsta víst að Petteri Orpó verði næsti forsætisráðherra Finnlands. Stjórnarmyndunarviðræður, undir forystu Orpó, munu hefjast eftir helgi.
Myndin: Petteri Orpó, fyrir miðju, með órætt bros. Íhaldsflokkurinn hans er sá stærsti á Eduskunta, löggjafarsamkomu Finna.