Nýtt fyrirtæki, Fjölmiðlatorg ehf, hefur keypti DV á 420 milljónir. Fyrirtækið er alfarið í eigu Helga Magnússonar auðmanns en hann var einnig aðaleigandi Torgs sem fór í þrot á dögunum. Torg átti Fréttablaðið, DV og Hringbraut.
RÚV greinir frá þessu. Hátt í hundrað starfsmenn misstu vinnuna þegar Fréttablaðið lagði upp laupana á föstudag. Tveir þeirra fá mögulega vinnu á DV því til stendur að fjölga blaðamönnum þar úr sjö í níu. Helgi er skráður stjórnarformaður Fjölmiðlatorgs og Jón Þórisson, fyrrverandi forstjóri Torgs, er framkvæmdastjóri.
Helgi var einn af stofnendum Viðreisnar og hefur styrkt flokkinn um háar upphæðir. Því hefur oft verið haldið fram að Helgi hafi eignast fjölmiðlana til að auka áhrif Viðreisnar. Rekstrartap Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins, DV og Hringbrautar, var samtals um 1,4 milljarðar frá því að Helgi Magnússon keypti Fréttablaðið. Fylgi Viðreisnar hefur staðið í stað eða dalað síðan Helgi eignaðist fjölmiðlana.