Hjalti Már Björnsson, læknir á bráðamóttöku Landspítalans, segir farir sínar ekki sléttar af rútufyrirtækinu Snæland Grímsson. Hjalti greinir á Twitter frá því hvernig hann hafi ítrekað óskað eftir því við rútubílstjóra, sem leggja við leikskóla, að drepa á bílnum. Flestir bílstjórar hafa þó verið með múður.
„Snæland Grímsson er rútufyrirtæki sem er sama um heilsu skólabarna. Loftmengun frá bílaumferð veldur heilsutjóni á höfuðborgarsvæðinu. Þó að loftmengun sé að miklu leyti vegna dekkja- og malbiksagna er stór hluti vegna útblásturs, þar eru stórir díselbílar verstir,“ skrifar Hjalti á Twitter en hann fer yfir málið í nokkrum tístum.
Hjalti heldur áfram: „Fyrir utan útblástur í akstri er vanmetið hversu mikil loftmengun verður í kringum bíl í lausagangi. Við verðum mest vör við þetta með nefinu, við díselbíl í lausagangi finnst greinilega á lyktinni hvernig mengunargildi ná fáránlegum hæðum. Reglur um lausagang bifreiða er að finna í grein 6.2 í reglugerð nr. 788/1999: „Óheimilt er að skilja ökutæki eftir í gangi þegar þau eru yfirgefin. Jafnframt er óheimilt að láta vélar kyrrstæðra ökutækja ganga lengur en í örstutta stund nema sérstaklega standi á.“ Það er því ekki leyfilegt að hafa bíla í lausagangi enda ljóst að það veldur fólki heilsutjóni, fyrir utan kolefnissporið sem því fylgir.“
Hjalti segir að Snæland Grímsson sinni akstri fyrir íþróttafélag í Háaleitishverfinu. „Hér í Háaleitishverfinu hef ég nú árum saman verið að glíma við rútufyrirtækið Snæland Grímsson. Þau sjá um akstur fyrir íþróttafélagið í hverfinu en bílstjórar hafa oft og tíðum stórar dísilrútur í lausagangi, á skólalóðinni rétt við leikskólann í hverfinu. Ég hef endurtekið beðið bílstjóra um að drepa á bílnum,“ segir Hjalti.
Honum var þó nóg boðið fyrr í dag þegar bílstjóri neitaði að drepa á bílnum. „Hafa þau stundum gert það en einnig komið fyrir að því hafi verið neitað. Því er þá haldið fram að það fari illa með díselvélina að drepa á henni. Endurtekið hef ég einnig sent pósta til stjórnenda fyrirtækisins sem alltaf hafa sagt að lausaganga sé brot á reglum þess og lofað betrun. Það hefur hins vegar engu skilað. Í dag sat þessi rútubílstjóri sofandi í rútu sinni í gangi, með útblástursrörið í átt að leikskólanum. Ég bað hann vinsamlegast að drepa á bílnum. Hann neitaði og sagðist þurfa að halda hita á vélinni,“ segir Hjalti.
Að lokum segir hann nauðsynlegt að stjórnvöld stígi inn í. „Mér sýnist því ljóst að fyrirtækinu Snæland Grímsson þyki meira máli skipta heilbrigði vélanna í bílum sínum en heilsa skólabarnanna í hverfinu, eða okkur annarra íbúa. Hér þurfa stjórnvöld að stíga inn. Það er ekki í lagi að fyrirtæki séu vísvitandi að valda tjóni á heilsu leikskólabarna með þessum hætti.“