Kaupmáttur orðinn lakari en hann var í janúar 2022

Kaupmáttur 6. taxta Starfsgreinasambandsins eftir skatta og húsnæðisbætur er nú orðinn lakari en hann var í ársbyrjun í fyrra. Þrátt fyrir skammtímasamningana í nóvember, skattaleiðréttingu í janúar og hækkun húsnæðisbóta bæði um áramót og um mitt síðasta sumar. Verðbólga eyrir engu. Fram undan eru mánuðir án launahækkana þar sem verðbólgan mun éta upp kaupmátt launafólks.

Fólk sem er á 6. taxta SGS nær ekki endum saman. Sé miðað við framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara, sem tilgreina lágmarksframfærslu áður en fólk hefur nokkuð aflögu til að greiða niður skuldir sínar, og bætt við viðmiðin leigu fyrir örlitla íbúð á höfuðborgarsvæðinu, vantaði þau sem unnu fulla vinnu á 6. taxta SGS 42.600 kr. til að ná endum saman í janúar 2022. Laun höfðu þá hækkað og persónuafsláttur verið lagfærður til að mæta hækkandi verðbólgu. Þessar lagfæringar gerðu ekki annað en bæta launafólkinu verðhækkanir ársins 2021. Í ársbyrjun það ár var mínusinn hjá fólkinu á 6. taxta SGS 42.300 kr.

Í apríl 2022 hækkuðu laun vegna hagvaxtarauka og í júní hækkuðu húsnæðisbætur. Eftir sem áður var mínusinn kominn í 61.750 kr. þegar samið var fram í október. Við samningana og síðan leiðréttingu persónuafsláttar um áramótin og aðra hækkun húsnæðisbóta minnkaði mínusinn niður í 30.500 í janúar. Verðbólgan var þá komin á mikið skrið og át hluta af ávinningnum jafnóðum.

Og verðbólgan hélt áfram að éta upp kaupmáttinn. Miðað við hækkun neysluvísitölu í apríl er mínusinn hjá fólkinu á 6. taxta SGS kominn niður í 44.000 kr. Orðinn verri en í janúar 2022 og líka verri en í janúar 2021. Þrátt fyrir samninga og aðgerðir ríkisstjórnar er allur ávinningur farin og launafólkið óvarið fyrir áframhaldandi verðbólgu.

Línuritið sýnir þróun kaupmáttar dagvinnutaxta 6. launaflokks Starfsgreinasambandsins eftir skatta og húsnæðisbætur. Eins og sést eru allar tölur í mínus. Fólkið nær ekki að lifa af launum sínum. Annað hvort sveltur það eftir að hafa rétt leigusalanum leiguna, leitar til hjálparstofnana eða bætir á sig nýrri vinnu og étur með því upp frítíma eða svefn.

Ljósu súlurnar sýna mínusinn ef verðbólgan verður söm út samningstímann og hún mældist í apríl. Það er hrollvekjandi tilhugsun. Mínusinn, það sem fólki skortir til að geta lifað, yrði þá nærri 95.500 kr. í janúar á næsta ári. Það er verri staða en fólk á 6. taxta SGS hefur áður þurft að horfast í augu við.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí