Kristján Þórður gefst upp á átökunum og vill ekki verða forseti ASÍ

Kristján Þórður Snæbjarnarson, starfandi forseti Alþýðusambandsins, ætlar ekki að bjóða sig fram sem forseta á framhaldsþingi sambandisns, sem halda á seinna í mánuðinum. Kristján Þórður virðist lesa það í stöðina að hann njóti ekki stuðnings til að sækjast eftir stöðu forseta. Staðan er sú að eitt framboð er til forseta, en Ólöf Helga Adolfsdóttir, fyrrum ritari stjórnar Eflingar og stjórnarmaður í verkalýðsmálaráði Samfylkingarinnar, hefur ekki dregið framboð sitt til baka.

Kristján Þórður skrifaði pistil á Facebook í morgun. „Ég hef oft verið spurður að því hvort ég ætli að gefa kost á mér til að sinna embætti forseta ASÍ á komandi þingi og hef fengið gríðarlega mikla hvatningu frá fjölmörgum víðs vegar um landið sem ég er afar þakklátur fyrir. Á síðasta þingi gaf ég kost á mér til að vera 1. varaforseti enda hef ég metnað fyrir því að leggja mitt af mörkum til að ASÍ gangi sem best til hagsbóta fyrir launafólk og er það framboð enn í gildi. Ég hef ekki skipt um skoðun hvað það varðar og mun að svo stöddu ekki gefa kost á mér í embætti forseta ASÍ en ég gef kost á mér til 1. varaforseta á framhaldsþingi ASÍ í lok mánaðar,“ skrifar Kristján Þórður.

Samkvæmt heimildum Samstöðvarinnar hafa formenn innan Starfsgreinasambandsins gefið sterklega til kynna að þeir geti ekki stutt Kristján Þórð til forseta. Hann var þó almennt talinn líklegastur til að tala á milli stríðandi fylkinga. Hans sök virðist vera að hafa einmitt reynt það, að ræða við Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann Eflingar og Ragnar Þór Ingólfsson formann VR, sem formennirnir innan SGS töldu sig hafa gert áhrifalaus innan ASÍ, þótt þetta séu formenn félaga sem hafa meira en helming félagsmanna ASÍ innan sinna vébanda.

Tilkynning Kristjáns Þórð sýnir því að kreppan innan ASÍ er djúp og vandséð hvernig hún á að leysast. Starfsgreinasambandið hefur komið sér saman um lista frambjóðenda til miðstjórnar ASÍ, en þar er enginn fulltrúi Eflingar. Stríð heldur því áfram. Það er markmið formanna í Starfsgreinasambandinu að gera stærsta félagið innan SGS áhrifalaust bæði innan SGS og ASÍ.

Það hefur komið fram að Kristján Þórður vildi endurvekja samninganefnd Alþýðusambandsins, sem vettvang til að ólíkar fylkingar gætu unnið saman að skilgreindum markmiðum. Sú leið naut ekki stuðnings formanna innan SGS og Kristján Þórður virðist þá hafa áttað sig á að átöðkin myndu halda áfram. Það er ekki almennur vilji innan ASÍ að sambandi virki á nokkurn hátt.

„Ég hef lagt mikið á mig við að reyna að bæta stöðu mála innan ASÍ þrátt fyrir þessar aðstæður og er sáttur við mitt framlag þó svo maður hefði að sjálfsögðu viljað hafa meiri tíma til þess að sinna þessu,“ skrifar Kristján Þórður á Facebook.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí