Þrátt fyrir að bílastæðum fari fækkandi í Reykjavík er ekki í kortunum að auka tíðni Strætó né bæta þjónustuna. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn um fækkun stæða í Reykjavík.
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þann 1. mars sl. barst fyrirspurn frá fulltrúa Sósíalista varðandi fækkun bílastæða í borginni. Þar var leitað svara við því hvort áætlanir væru í gangi til að efla Strætó samhliða þeirri þróun að bílastæðum fari fækkandi.
Svona hljóðaði fyrirspurnin í heild sinni: „Á fundi umhverfis-og skipulagsráðs 8. febrúar sl. var samþykkt að breyta fyrirkomulagi gangstéttar og bílastæða við Brautarholt 16-20. Þar var m.a. kveðið á um að bílastæðum yrði fækkað úr 25 í 6. Verður hugað að því að efla Strætó á nærliggjandi svæði svo íbúar geti raunverulega nýtt sér hann í stað einkabílsins? Ef svo er, hvernig verður hugað að því? Hefur samtal átt sér stað við Strætó til þess að efla leiðakerfi og tíðni á þeim svæðum þar sem bílastæðum fer fækkandi? Mikilvægt er að almenningssamgöngur séu efldar
til muna á sama tíma og bílastæðum fer fækkandi.“
Stutt svar barst síðan frá skrifstofustjóra samgöngustjóra og borgarhönnunar. Í því kemur fram að ekki standi til að efla Strætó í tengslum við breytingarnar (fækkun bílastæða). Svarið í heild sinni er hér.
Það er því ljóst að meirihlutinn í Reykjavík leggur upp með að fækka bílastæðum samhliða því að ekkert er gert til að bæta Strætó. Megin leiðirnar til að draga úr bílanotkun virðast því vera að fækka stæðum, en ekki bæta almenningssamgöngur.