„Bankarnir kölluðu eftir hærri vöxtum, fjármálaráðherra kallaði eftir hærri vöxtum. Hvað gerir Seðlabankinn, jú hann hækkar stýrivexti í takt við óskir yfirmanns síns,“ segir Kristján Þórður Sveinbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, í tilefni af stýrivaxtahækkun Seðlabankans.
„Það liggur fyrir að vextir eru farnir að auka verulega kostnað við rekstur húsnæðis, ýtir nú undir hækkun fasteignaverðs, fólk flýr óverðtryggð lán og fer í verðtryggð með lægri greiðslubyrði og getur þannig haldið greiðslubyrði lægri en á sama tíma vinnur það gegn markmiðum SÍ,“ skrifar Kristján Þórður á Facebook. „Þetta kyndir undir verðbólgubálinu. En þenslan liggur reyndar ekki þarna samkvæmt SÍ. Vandamálin núna eru þau að fyrirtæki landsins eru að sækja of mikið fé sem tekið er að láni. SÍ telur að núna þurfi að hækka vexti til að sporna við því í stað þess að grípa til sértækra aðgerða sem gætu takmarkað útlán til fyrirtækjanna. Þessi leið SÍ virkar hreinlega ekki og Seðlabankinn mun líklega ekki viðurkenna það fyrr en að allt er komið í þrot; þegar nægur fjöldi heimila landsins er kominn í þrot; þegar búið er að taka eignir af fólkinu; þegar eignamyndun hjá venjulegu fólki undanfarinna ára hefur verið tekin til baka.“
Kristján segir að verðbólga dagsins í dag hér á landi og víðsvegar í heiminum sé hagnaðardrifin verðbólga þar sem fyrirtækin nýta sér núverandi stöðu til að hækka verð úr hófi. „Það er rót vandans í dag, hagnaðardrifin verðbólga. Hið opinbera er nákvæmlega ekkert að gera til að bregðast við þessum vanda, enda sýnist mér ríkisstjórn Íslands vera með það helsta markmið að tryggja fjármagnseigendum aukið fjármagn og það skal sótt til almennings; til unga fólksins; til öryrkja og aldraðra,“ segir Kristján Þórður.