Hagstofan birti þrjár fréttatilkynningar í morgun sem allar vísa til mikils góðæris. Hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi var 7% hærri en á sama tíma og í fyrra. Skráðar gistinætur í apríl hafa aldrei verið fleiri, þar er um 23% aukning frá fyrra ári. Og á fyrsta ársfjórðungi var verð fyrir sjávarafla jafn hátt og í fyrra þrátt fyrir að 8% minna afla landað. Verðmætasti fiskurinn gaf 1% hærra verð þrátt fyrir 9% minni afla. Það er tæplega 11% verðhækkun.
Það er því blússandi góðæri á Íslandi. Á sama tíma er það stefna stjórnvalda að lækka raunlaun almennings. Það leiðir til þess að meira verður eftir fyrir fjármagns- og fyrirtækjaeigendur.
Einfalt reikningsdæmi væri svona. Í samfélagi þar sem er 10% verðbólga, 7% hagvöxtur og 3% fólksfjölgun þurfa laun að hækka um 14,3% ef launafólk á að fá jafn stóra sneið af framleiðslunni og áður. Í samningunum fyrir áramót var samið um 6,75% hækkun á meðallaun. Samningarnir voru því í raun um að launafólk tæki minna til sín, en fyrirtækja- og fjármagnseigendur meira.
Í grunninn skiptist kakan í þrennt. Launafólk fær eina sneið með launum sínum. Fyrirtækjaeigendur aðra með hagnaði fyrirtækjanna. Og fjármagnseigendur sína í gegnum vexti og leigu. Þegar stjórnarstefnan er sú að halda aftur að kröfum launafólks snýst hún í reynd um að stækka sneið fjármagns-ö og fyrirtækjaeigendur. Stefnan er aldrei orðuð með þessum hætti heldur klædd í allskyns búning, oftast þann að það sé launafólki fyrir bestu að minnka sína sneið til að draga úr verðbólgu. Fyrirtækja- og fjármagnseigendur heyra aldrei þá uppástungu.