Þau lönd í Evrópu sem eru með hærri stýrivexti en á Íslandi eru annars vegar stríðslöndin Úkraína og Belarús og hins vegar Ungverjaland og Tyrkland, sem eru undir stjórn hálf-fasískra popúlista. Öll skárri lönd hafa lægri vexti en eru á Íslandi.
Ef við flytjum okkur vestur um haf eru hærri vextir næstum reglan. Alveg frá Mexíkó til suðurodda Chile er algengara er vextir séu álíka eða hærri en á Íslandi. Helstu undantekningarnar eru Bólivía, Perú og Kúba, þar sem vextirnir eru lægri.
Í Afríku eru víða háir vextir. Í um þriðjungi álfunnar eru vextir viðlíka á Íslandi eða hærri. Annars staðar eru þeir lægri.
Í Asíu þekkjast ekki svona háir vextir nema í Íran, Pakistan, Mongólíu og fyrrum Sovétlýðveldum.
Þar með er það upptalið. Fæstir jarðarbúa búa við viðlíka vaxtakjör og Íslendingar. Samt geisar verðbólgan svo til um allan heim. Fáir seðlabankar beita stýrivöxtum hins vegar eins og sá íslenski. Þar sem vextir eru hærri er annað hvort óðaverðbólga og raunvextirnir þá gjarnan mjög neikvæðir þótt nafnvextirnir séu háir. Eða að vextirnir eru háir til að draga úr fjárflótta úr löndunum, þeim er þá beitt til að draga úr falli gjaldmiðilsins. Sem auðvitað er líka vörn gegn verðbólgu. En í þessum löndum eru vextirnir gjarnan umtalsvert hærri en verðbólgan, raunvextir mikið jákvæðir.
Rauðu löndin á myndinni eru þau sem hafa álíka eða hærri stýrivexti en Ísland.