Sala á áfengi hjá ÁTVR dróst saman um ríflega 8 prósent í fyrra. Sala á tóbaki dróst enn meira saman. Um 15 prósent færri vindlingar og um 24 prósent minna neftóbak var selt árið 2022. Þetta kemur fram í nýjum ársreikningi ÁTVR.
Það er þó varla tilefni til að hrósa þjóðinni fyrir heilbrigðara líferni, því árin tvö á undan, 2020 og 2021, var sprenging í sölu á þessum vímuefnum. Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR, orðaði það svo í ársreikningnum: „Á árinu 2022 verður rekstrarumhverfið aftur eins og var á árunum fyrir covid. Afkoma var umfram áætlun og nam hagnaður ársins 877 m.kr.“
Árið 2019 voru tæplega 23 þúsund lítrar af áfengi seldir. Ári síðar snarhækkaði salan og fór í tæplega 27 þúsund lítra. Árið 2021 minnkaði salan örlítið, en var þó ríflega 26 þúsund lítrar. Líkt og fyrr segir dróst salan saman í fyrra, en rétt ríflega 24 þúsund lítrar voru seldir árið 2022.
Ástæðulaust er þó að hafa áhyggjur af rekstri ÁTVR. „Viðskiptavinafjöldi Vínbúðanna var 5,2 milljónir sem eru 5,3% færri viðskiptavinir en árið á undan. Eignir námu 8.833 m.kr, skuldir voru 1.886 m.kr. og eigið fé nam 6.947 m.kr. í árslok 2022. Greiddur var 500 m. kr. arður í ríkissjóð,“ segir Ívar.