Hagsmunasamtök heimilanna færa rök fyrir því að leigubremsa myndi ekki einungis hjálpa þeim sem eru staddir á grimmum leigumarkaði heldur öllum almenningi. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna, sem varaformaður Guðmundur Ásgeirsson skrifar undir, við frumvarpi þingmanna Flokk fólksins um að koma á fót leigubremsu. Þess má geta að formaður samtakanna, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, er meðal flutningsmanna frumvarpsins.
Verði frumvarpið að lögum yrði óheimilt að „hækka fjárhæð leigu íbúðarhúsnæðis oftar en á 12 mánaða fresti og er þá að hámarki heimilt að hækka hana í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs á tímabilinu“.
Samtökin benda á að húsnæðiskostnaður er stór liður í vísitölu neysluverðs. „Verðbólga er nú í hæstu hæðum en með því að draga úr hækkun á húsnæðislið vísitölunnar væri strax hægt að stíga stórt skref til að koma böndum á verðbólgu, líkt og hefur m.a. verið gert á Spáni með góðum árangri þannig að strax dró verulega úr verðbólgu,“ segir í umsögn samtakanna.
Frumvarpið kveður einnig á um að styrkja forgangsrétt leigjenda til að halda áfram að leigja sama húsnæði við lok umsamins leigutíma. Samtökin segja marga leigjendur ekki átta sig á þeim réttindum sem þeir nú þegar hafa. Einnig sé nokkuð um að svindl leigusala. Í umsögninni segir:
„Varðandi tillögu í 2. gr. frumvarpsins um að styrkja forgangsrétt leigjanda til að halda áfram að leigja sama húsnæði við lok umsamins leigutíma ef það verður áfram til útleigu, vilja samtökin koma því á framfæri að þau hafa orðið vör við að leigjendur virðast almennt vera lítið meðvitaðir um þann rétt sem þeir hafa nú þegar í því sambandi. Samtökin eru þess vegna fylgjandi því að frestur til að tilkynna um nýtingu forgangsréttar framlengist ef leigusali hefur ekki sannanlega upplýst leigjanda um þann rétt. Jafnframt hvetja samtökin til þess að ráðist verði í sérstakt fræðsluátak til að kynna leigjendum betur lögbundin réttindi þeirra og leigusölum skyldur þeirra gagnvart leigjendum. Auk þess þarf að stemma stigu við svikum sem felast í því að leigusali segist ætla að selja íbúðina til að losna undan skyldum sínum, þegar í raun er aðeins um að ræða kennitöluflakk til félags í eigu sama aðila.“