„Líklegt að um miðja þessa öld muni enska hafa tekið við af íslensku sem aðalsamskiptamálið“

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emíratus við Háskóla Íslands, segir í pistli sem hann birtir á Facebook að líklegt sé að um miðja þessa öld muni enska hafa tekið við af íslensku sem aðalsamskiptamálið í landinu. Eiríkur bendir á að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fimm ár sé ekki að sjá neinar vísbendingar um átak í kennslu íslensku sem annars máls. Hann segir nauðsynlegt að bregðast strax við ef landsmenn vilja halda í íslenskuna.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Eiríks í heild sinni.

Í fyrrahaust var tilkynnt með pomp og prakt um stofnun ráðherranefndar um íslenska tungu þar sem fimm ráðherrar, undir forystu forsætisráðherra, eiga að „vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins“. En síðan nefndin var skipuð hefur ekki heyrst múkk frá henni. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar í janúar var boðuð „Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ þar sem átti að birta aðgerðir frá nefndinni sem „varða málefni íslenskrar tungu vítt og breitt í samfélaginu í þágu íslenskrar tungu“. Þessa tillögu átti að leggja fram 27. mars, en í yfirliti um „óframlögð og niðurfelld mál“ frá því 27. apríl stendur einfaldlega við þessa tillögu: „Felld niður.“ Engar skýringar fylgja.

Í sjónvarpsþættinum Orðbragð fyrir 10 árum var ég spurður um framtíð íslenskunnar og sagði m.a.: „En hitt getur líka verið, og er alls ekkert ólíklegt, að íslenska verði alls ekki til, hún verði horfin eftir 100 ár, vegna þess að það verði ekki hægt að nota hana á sviðum sem eru mikilvæg í daglegu lífi alls almennings, þannig að fólk bara gefist upp á þessu tungumáli og fari yfir í eitthvað annað, þá væntanlega ensku.“ Þarna var ég einkum að vísa til þess að staða íslensku á sviði máltækni var mjög döpur á þessum tíma, en máltækniátak stjórnvalda undanfarin fjögur ár hefur gerbreytt stöðunni til hins betra. Ég held þess vegna að engin ástæða sé til að óttast að tæknilegar ástæður valdi því að íslenska verði ónothæf á einhverjum sviðum.

En þar með er ekki sagt að framtíð íslenskunnar sé tryggð, því að á þessum 10 árum sem liðin eru hefur annað komið til sem veldur áhyggjum um stöðu málsins í framtíðinni. Það er gífurleg aukning í notkun annarra tungumála í landinu, einkum ensku. Þessi aukning stafar annars vegar af sprengingu í ferðaþjónustu þar sem enska er aðaltungumálið eins og nýleg rannsókn sýnir, og hins vegar af mikilli fjölgun fólks með annað móðurmál sem kemur hingað til að setjast að eða til að vinna hér tímabundið. Enska er aðalsamskiptamál milli okkar og þess fólks, og einnig innbyrðis milli fólks af mismunandi þjóðernum. Nú eru farin að verða til hér á landi afmörkuð málsamfélög þar sem íslenska er ekki notuð og þar sem fæstir kunna íslensku.

Það er nokkuð ljóst að fólki með annað móðurmál en íslensku mun enn fara fjölgandi á næstu áratugum. Erfitt er að spá fyrir um þróun í ferðaþjónustu en ekkert bendir þó til annars en ferðafólki haldi áfram að fjölga. Atvinnurekendur kalla eftir meira vinnuafli og því hefur verið spáð að eftir 20-30 ár verði allt að helmingur fólks á vinnumarkaði af erlendum uppruna. Á sama tíma er fæðingartíðni í sögulegu lágmarki. Allt þetta leiðir til þess að hlutfall enskunotkunar á móti íslenskunotkun hlýtur að fara hækkandi og það hefur margvísleg áhrif. Ef við lendum í þeirri stöðu að talsverður hluti landsmanna tali ekki íslensku verður óhjákvæmilegt að auka rétt ensku í landinu og jafnvel gera hana að opinberu máli samhliða íslensku.

Að öðrum kosti værum við að útiloka fólk sem ekki talar íslensku frá margs konar þátttöku í þjóðfélaginu og kynnum að vera að brjóta beinlínis gegn mannréttindum þess. Hér má minna á ýmis vandamál sem Lettar hafa lent í, m.a. gagnvart ESB, vegna þess að eftir að landið fékk sjálfstæði var staða rússnesku í landinu þrengd mjög en þar er stór rússneskumælandi minnihluti. En ég legg mikla áherslu á að ég er ekki á móti fjölgun innflytjenda. Þvert á móti – okkur vantar fleira fólk og við eigum að taka þeim sem hingað vilja koma opnum örmum. En ef við viljum að íslenska verði áfram aðalsamskiptamálið í landinu þurfum við að leggja höfuðáherslu á að kenna innflytjendum málið. Þar bera stjórnvöld mikla ábyrgð.

Stjórnvöld eiga vissulega skilið hrós fyrir myndarlegt átak á sviði máltækni en það er ekki nóg. Það verður ekki kallað annað en sýndarmennska að stofna ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu en heykjast síðan á því að leggja fram margboðaða aðgerðaáætlun á því sviði. Það hefur líka komið fram að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fimm ár er ekki að sjá neinar vísbendingar um átak í kennslu íslensku sem annars máls. Það er trúlegt, og vonandi, að íslenska verði enn til og notuð eftir hundrað ár. En ef svo fer fram sem horfir er alls ekki óhugsandi, og jafnvel líklegt, að um miðja þessa öld muni enska hafa tekið við af íslensku sem aðalsamskiptamálið í landinu. Ef okkur líst ekki á það þurfa stjórnvöld að bregðast við. Strax

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí