Á síðasta fundi borgarstjórnar, þann 16. maí síðastliðinn hélt Pawel Bartoszek, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, því fram að í fullkomnum heimi yrði strætó ekki gjaldfrjáls. Til umræðu í borgarstjórn var tillaga Sósíalista um gjaldfrjálsan Strætó á kosningadag. Þetta voru viðbrögð hans við ræðu Alexöndru Briem, sem hafði sagt að í fullkomnum heimi væri Strætó gjaldfrjáls.
Hugmyndin um gjaldfrjálsar almenningssamgöngur er einföld en byltingarkennd: hvað ef fólk gæti ferðast með strætó, ferju eða lest, allt án þess að opna veskið? Þetta eru engir draumórar eða fantasíur, því að í borginni Stavanger í Noregi munu almenningssamgöngur vera gjaldfrjálsar öllum frá 1. júli næstkomandi. Þessi hugmynd hefur vakið mikla athygli og er því ágætt fyrir okkur Íslendinga að opna á umræðuna um kosti gjaldfrjálsra almenningssamgangna.
Stavanger, fjórða stærsta borg Noregs, samanstendur af 140 þúsund íbúum. Mannfjöldinn er því ekki ósvipaður og hér á höfuðborgarsvæðinu. Í raun töluvert fámennari. Íbúar borgarinnar hafa háar meðaltekjur og borgin þekkt fyrir mikla bílanotkun og loftmengun. Árið 2019 notuðu aðeins 12% íbúa hennar almenningssamgöngur, sem er lægsta hlutfall meðal stærstu borganna í Noregi. Sveitarstjórnin í Stavanger réðst því í róttækar aðgerðir til að takast á við málin. Sveitarstjórnin ákvað að gera almenningssamgöngur gjaldfrjálsar. Þar má telja samgöngur eins og strætó, ferjur og lestir sem tengja borgina við nágrennið, allt án kostnaðar fyrir farþega. Með þessari aðgerð vill sveitarstjórnin hvetja íbúa til að nota almenningssamgöngur, draga úr bílferðum, loftmengun og stuðla að sjálfbærri borg.
Aðgerðin verður greidd úr „sparekonto“ sveitarfélagsins, sem hefur lagt 2,6 milljarða króna til að mæta kostnaði við gjaldfrjálsar samgöngur. Þótt Stavanger sé fyrsta stóra norska borgin til að innleiða gjaldfrjálsar almenningssamgöngur er hún langt í frá eina dæmið.
Yfir 100 borgir í heiminum hafa innleitt gjaldfrjálsar samgöngur á einhverjum svæðum eða fyrir ákveðna hópa, þar á meðal Taichung í Taívan, Miami í Bandaríkjunum og Velenje í Slóveníu. Lúxemborg var fyrsta landið sem gerði allar almenningssamgöngur gjaldfrjálsar á landsvísu, árið 2020. Gjaldfrjálsar almenningssamgöngur eru ekki bara góðar fyrir umhverfið, þær geta aukið félagslegan jöfnuð, aðgengi fyrir þá sem hafa ekki bíl eða hafa ekki efni á fargjöldum.
Þær geta lækkað framfærslukostnað fyrir alla íbúa, aukið verslunaratvinnu í borginni, .minnkað umferðarslys og loftmengun og stuðlað að betri heilsu og vellíðan. Auk þess geta þær sparað tíma og orku fyrir bæði farþega og starfsfólk sem vinnur við almenningssamgöngur.
Hvað er sparekonto?
Sparekonto er sparnaðarreikningur sem sveitarfélög í Noregi geta stofnað til að safna fyrir framtíðarverkefnum eða óvæntum útgjöldum. Sveitarfélagið ræður notkun peninganna og hvernig á að greiða inn á reikninginn, sem er gert með hluta af tekjum, t. d. af skatttekjum eða náttúruauðlindum. Þó er notkunin bundin reglum sem sparisjóðabankar setja. Sparekonto er sem sagt sparnaðartól sem sveitarfélög geta notað með aðstoð frá sparisjóði.