Alþýðusambands Íslands gagnrýnir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar harðlega í umsögn til Alþingis. ASÍ gagnrýnir sérstaklega að ekki sé að finna neina markavissar aðgerðir til að ná niður verðbólgu eða styðja við afkomu heimila. Einnig er engar aðgerðir að finna sem mæta miklum vanda á húsnæðismarkaðinum. Umsögnin er skrifuð af Róbert Farestveit, hagfræðingi ASÍ.
Róbert segir að stjórnvöld þurfi nauðsynlega að efla tekjustofna, þá sérstaklega hvað varðar auðlindagjald og skattlagningu fjármagnstekna. „Fjármálaáætlun felur í sér að frumjöfnuður verði jákvæður á þessu ári og skuldir nái hámarki í 40% af vergri landsframleiðslu. Stjórnvöld hafa ekki sýnt nægjanlegt aðhald í útgjöldum. Afkoma hefur hins vegar batnað vegna áhrifa hagsveiflunnar á tekjur. Tekjuauka sem leiðir af stöðu hagsveiflunnar er því ráðstafað í aukin útgjöld fremur en draga úr skuldum. ASÍ telur að ganga þurfi lengra í eflingu tekjustofna hins opinbera og að horfa þurfi m.a. til notkunar auðlindagjalda og umbóta í skattlagningu fjármagnstekna,“ segir í umsögninni.
Róbert segir enn fremur að í fjármálaáætlun sé ekkert að finna við helstu vandamálum nútímans. „Há verðbólga og vandi á húsnæðismarkaði eru stærstu áskoranir efnahagsmála á næstu misserum. ASÍ telur það vonbrigði að ekki sé að finna markvissar aðgerðir til að draga úr verðbólgu eða bregðast við afkomu- og húsnæðisvanda í fjármálaáætlun. Í raun hafa áherslur stjórnvalda í skattamálum unnið gegn hjöðnun verðbólgu1. Stjórnvöld geta stutt við heimilin og eflt tekjustofna hins opinbera án þess að dregið sé úr aðhaldi ríkisfjármála. ASÍ telur að setja þurfi umbætur í húsnæðismálum í forgang á næstu misserum ásamt því að styrkja stuðning til barnafjölskyldna og efla húsnæðisstuðning með sértækum aðgerðum þannig að markmið um að húsnæðiskostnaður nemi undir 25% af ráðstöfunartekjum náist.“
Hér má lesa umsögn Róberts í heild sinni.