Geirdís Hanna Kristjánsdóttir hefur stofnað undirskriftasöfnun þar sem skorað er á Reykjavíkurborg að fundin verði framtíðarlausn fyrir íbúa í hjólhýsastæðunum í Laugardalnum. Geirdís segir að það valdi íbúum miklum kvíða að fá einungis tímabundna leigusamninga. Hún segir einnig að íbúar hafi margreynt að fá úrlausn sinna mála án árangrs.
„Hér er um að ræða venjulegt fólk sem kýs óhefðbundið búsetuform en kemur alls staðar að lokuðum dyrum. Þess ber jafnframt að geta að Reykjavíkurborg hefur engin önnur úrræði að bjóða þeim sem kjósa þetta búsetuform, enda telja biðlistar eftir félagslegu leiguhúsnæði mörghundruð manns og almennur leigumarkaður er ömögulegur og fjandsamlegur fólki með tekjur undir lágmarkslaunum,“ skrifar Geirdís og heldur áfram:
„Leigusamningar íbúanna renna út 15. maí næstkomandi og mun þá íbúum vera vísað af svæðinu án þess að Reykjavíkurborg hafi fundið þeim annan samastað. Það er ólíðandi og það hlýtur að vera til betri lausn en að senda fólk á vergang.“
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalita, tekur undir með Geirdísi og segir í færslu á Facebook: „Getur þú hjálpað íbúum í Laugardal sem óska eftir því að langtímastæði verði fundin fyrir heimili þeirra? Leigusamningar íbúanna renna út 15. maí næstkomandi og mun þá íbúum vera vísað af svæðinu án þess að Reykjavíkurborg hafi fundið þeim annan samastað. Það er ólíðandi og það hlýtur að vera til betri lausn en að senda fólk á vergang.“