Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í pistli sem hún birtir á Facebook að hún hafi upplifað mikla reiði í dag þegar hún skoðaði niðurstöður sem kannanir Vörðu hafa leitt í ljós. Samkvæmt þeim lifir ört stækkandi hópur fólks við allsleysi. Sólveig segir að valdastéttin geri ekkert til að leysa vandan, sem verður sífellt meira aðkallandi.
Hér fyrir neðan má lesa pistil Sólveigar í heild sinni.
Í dag var ég viðstödd kynningu á nýrri rannsókn Vörðu, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, um stöðu launafólks á Íslandi. Ég óska Vörðu til hamingju með mikilvægt og gott starf. Efling hefur haft mikið gagn af fyrri rannsóknum í baráttu félagsins fyrir efnahagslegu réttlæti og svo verður einnig um þessa.
Líkt og áður þegar ég skoða niðurstöður þær sem kannanir Vörðu leiða í ljós upplifi ég mikla reiði gagnvart því helsjúka ástandi sem að vex og dafnar í samfélagi okkar. Á meðan að meðlimir vel settrar millistéttar og þau sem ofar dvelja í stigveldi misskiptingar og stéttskiptingar hafa allt sem að þau þurfa og miklu meira en það, lifir ört stækkandi hópur fólks við stöðugar áhyggjur og allsleysi. Einstæðar mæður og innflytjendur af stétt verkafólks eru látin bera þyngstar byrðar af öllum. Fólk hefur ekkert á milli handanna, getur ekki mætt óvæntum útgjöldum, getur ekki glaðst með börnunum sínum.
Leigumarkaður auðvaldsins breytir lífi saklauss vinnandi fólks í martröð. Fjölskyldur á leigumarkaði þekkja ekkert nema viðvarandi blankheit og áhyggjur af því hvað gerist þegar að leigusamningurinn rennur út. Og pólitísk valdastétt gerir ekkert til að leysa vandann sem að hún ber ábyrgð á, en dvelur lengstum í sýndarveruleika ímyndarsköpunnar svo að útlendir fjölmiðlar haldi að hún sé æðisleg eða er störfum hlaðin við að uppfylla skipanir yfirstéttarinnar um þjóðfélagslegt skipulag. Allt á kostnað vinnuafls landsins okkar.
Efling barðist allan síðasta vetur fyrir því að vinnuafl höfuðborgarsvæðisins fengi sanngjarnan og góðan kjarasamning, þar sem að m.a. væri tekið tillit til viðvarandi hallareksturs á heimilium láglaunafólks, sérstaklega þeirra sem að pínd eru á leigumarkaði, með sérstakri framfærsluuppbót. Íslensk valdastétt, pólitísk og efnahagsleg, sameinaðist í því að reyna að berja baráttu samninganefndar Eflingar niður með öllum tiltækum ráðum. Vinnumarkaðsráðherra, maðurinn sem af einhverjum ástæðum telur sig þess umkominn að sinn því embætti, lét sig hverfa til útlanda til að ímyndarskapa þar fyrir flokkin sem að einu sinni þóttist vera til vinstri en nennir því ekki einu sinni lengur, frekar en að hitta fulltrúa Eflingar.
Forsætisráðherra sagði, eftir að hafa hlustað á fulltrúa úr samninganefnd Eflingar, segja frá þeim kjörum sem að Eflingar-fólki er boðið upp á, við fjölmiðla að „ekkert markvert“ hefði komið fram í máli okkar. Fjármálaráðherra móðgaðist agalega þegar að ég og félagar mínir sögðum honum til syndanna á mótmælum Eflingar-fólks fyrir utan ráðherrabústaðinn. Ríkissáttasemjari gekk í lið með Samtökum atvinnulífsins eins og ekkert væri og reyndi að svipta Eflingu lögvörðum réttinum til að gera kjarasamning fyrir Eflingarfélaga. Og forystusveit SGS gekk í lið með öllum ofantöldum og lét sem að krafa samninganefndar Eflingar um sérstaka framfærsluuppbót vegna hrikalegs húsnæðiskostnaðar sem að leggur líf Eflingarfólks í rúst væri einhverskonar glæpur gegn mannkyni.
Og til að bíta höfuðið af allri þessari skömm hefur sjálft Alþýðusamband Íslands gefið út vefrit þar sem að látið er sem að öll barátta samninganefndar Eflingar, sem að skipuð er að stórum hluta innflytjendum og láglaunakonum, hafi ekki átt sér stað. Að engar láglaunakonur og engir innflytjendur hafi síðasta vetur tekið baráttuna í sínar eigin vinnu-hendur. Hugsið ykkur framkomuna við okkur í samninganefnd Eflingar!
Ef að þið eruð enn að leita eftir sönnunum á því hvort að það geti verið að Efling sé að fara með rétt mál þegar að við segjum frá því sem að mætir Eflingarfólki, hvet ég ykkur til að skoða könnun Vörðu.
Við í Eflingu bíðum eftir því að fá sérstakar niðurstöður frá Vörðu fyrir félagið, þær koma eflaust innan skamms. Ég mun fjalla ítarlega um þær. Ég bíð óþreyjufull , en tel mig þó vita nákvæmlega hvaða sögu þær muni segja; þá sömu og ég og félagar mínir höfum verið að segja í fimm ár stanslaust. Söguna af þeim tilveruskilyrðum sem að vinnuafli höfuðborgarsvæðisins er boðið uppá, söguna sem að valdastéttin vill ekki heyra og ekki heldur stór hluti þeirrar hreyfingar sem að Efling tilheyrir. Eins skammarlegt og það er.
Ég upplifi mikla reiði þegar ég meðtek upplýsingar um efnahagslegan veruleika þann sem við búum inn í. Ég vona að sífellt fleiri geri það líka. En ég ætla ekki að stoppa í reiðinni, ég ætla að nota hana til að kynda baráttuviljann. Því að það er ekkert annað í boði en að berjast. Fyrir réttlæti og sanngirni. Fyrir því að fólki fái að lifa frjálst undan kúgun arðræningja og veruleikafirrtrar valdastéttar. Ég og félagar mínir í Eflingu; við ætlum að vera eins og tréð í sálminum góða; okkur verður ekki haggað!
Ég læt hér annan sálm, sunginn af hinni stórkostlegu Mavis Staples, Turn me around, fylgja. Óréttlæti og kúgun, útþurrkun og jaðarsetning; þrátt fyrir allt þetta og þessvegna berjumst við Eflingarfólk. Og við erum rétt að byrja.