„Því miður er búið að innprenta þá trú að allt sé leysanlegt á forsendum kauphallarviðskipta“

Á málþingi Umhverfis- og loftslagsnefndar Sameykis sem fram fór í vikunni og bar yfirskriftina Loftslagið og hagkerfið, flutti Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum, erindi um hagvöxt á tímum hamfarahlýnunar.

Ásgeir Brynjar sagði að svo virðist sem tíminn sé að renna út til að bregðast við hlýnun jarðar, en sagði að enn væri von ef brugðist væri rétt við. Hann sagði að eftir því sem fram kom í máli Guðfinnu Aðalgeirsdóttur, prófessors í jöklafræði við Háskóla Íslands, þurfa stjórnvöld að taka mark á skýrslum loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna og vísindanna og bregðast við. Það sé því miður erfitt að ná athygli ríkisstjórnarinnar sem er í dag m.a. að vinna að því fyrir sérhagsmunaaðila að fá undanþágu á heimildum um losun koltvísýrings vegna flugsamganga út í andrúmsloftið og spara þannig flugrekstaraðilum kostnaðinn við losunina. Evrópusambandið er að bregðast við hamfarahlýnuninni með reglugerð til að sporna við losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið og Ásgeir Brynjar segir að það sé sameiginleg ábyrgð að taka þátt í því.


Krísur geta breytt heiminum
„Það er endalaust hægt að dæla í okkur tölulegum upplýsingum. Það er búið að vera að gera það lengi af vísindamönnum en við höfum ekki hlustað. Við fórum ekki að hlusta fyrr en rithöfundurinn Andri Snær Magnason fór að segja það sem loftslagsvísindamenn voru búnir að vera að segja okkur í áratugi. Nú lítur út fyrir að það vanti einhvern til að segja okkur að við erum að renna út á tíma. Ég veit ekki hvort það verður skáld, leikari eða galdramaður sem segir hagfræðinni það að gegndarlaus hagvöxtur gengur ekki upp lengur. Mazzucato, enn fremsti hagfræðingur okkar tíma, segir að það sé ljóst að við getum ekki beðið lengur með að gera hlutina öðruvísi og finna sameiginleg gildi. Óbreytt ástand er að bregðast of mörgum og breyta jörðinni á þann veg að komandi kynslóðir bera mikinn skaða af. Stjórnvöld verði að fjárfesta í sínum innri styrkleika og getu og þannig byggja upp hæfni og sjálfstraust til að hugsa stórt og eiga í samvinnu við viðskiptalífið og samfélagið, þannig að ný tengsl myndist milli þeirra sem vilja takast á við áskoranirnar.”

Ásgeir Brynjar sagði að besta dæmið sem við höfum hvernig krísur geta breytt heiminum mjög hratt er COVID-19 heimsfaraldurinn.

„Heimsfaraldurinn er eitt besta dæmið um hvernig við getum brugðist við og breytt hlutum mjög hratt sem við töldum áður að væru óbreytanlegir. Við getum gert þetta mjög skjótt ef við höfum viljan til þess, og það þarf heldur ekki að vera mjög dýrt. En stjórnvöld þurfa að átta sig á ógninni og taka hana alvarlega. Því miður er búið að innprenta þá trú að allt sé leysanlegt á forsendum kauphallarviðskipta og markaðarins, eins og að setja upp markað um kolefnislosun og þá mun hinn frjálsi markaður finna lausnir sem eru bestar. Við erum nú þegar búin að eyða 40 árum í það og hér erum við nú. Enn vitna ég í Mazzucato sem segir að nútímaleg útfærsla kapítalismans krefst þess að endurhugsa þurfi alla möguleika opinbera geirans, sem drifinn er áfram af almannahag – og lýðræðislega ákvarða skýr markmið sem samfélagið þarf að ná með því að fjárfesta og skapa saman,” sagði hann.


Ekki hægt að hafa endalausan hagvöxt
Aðalritari Sameinuðu þjóðanna segir að við höfum mögulega aðeins tíu ár til að bregðast við loftslagsvandanum. Það er mjög stuttur tími. Ásgeir Brynjar sagði að þegar nýfrjálshyggjan náði yfirhöndinni fyrir um 40 árum síðan hafi krafan um hagvöxt skilað okkur þangað sem við erum stödd núna – og sú hugmyndafræði dugar ekki til að leysa vandann.

„Þegar ég var tíu ára komst nýfrjálshyggjan til valda og kom með sínar lausnir sem hafa leitt okkur þangað sem við erum núna. Það er flestum ljóst að hugmyndir nýfrjálshyggjunnar duga ekki því þær einblína á hagvöxt án þess að að taka tillit til umhverfis, fólks né samfélags. Þá verður alltaf að líta a.m.k. á tvær hliðar á hverju máli. Hagvöxtur hefur gert þjóðunum mjög gott, hefur t.d. fært 800 milljónir manna úr sárri fátækt til velmegunar í Kína. Hagvöxtur er ekki slæmur í sjálfu sér en það má vera öllum ljóst að við getum ekki haldið áfram í veldisvexti endalaust og staðreyndirnar sem Guðfinna færði okkur áðan sýna okkur það.


Koma þarf sérhagmunaöflum frá völdum
Nútímaleg útfærsla kapítalismans krefst þess að endurhugsa alla möguleika opinbera geirans, sem er drifinn áfram af almannahag – og lýðræðislega ákvarða skýr markmið sem samfélagið þarf að ná með því að fjárfesta. Við verðum að hætta undanþágunum til að geta tekist á við þann mikla vanda sem blasir við okkur og við þurfum líka að breyta viðhorfum okkar í þá átt að hið opinbera þarf, og á, að setja reglur um hömlur. Svo að það megi verða þarf almannavald að standa saman í því. Og varðandi hagvöxtinn, þá er ekki endilega best að hinn hæfasti verði alltaf stærri og stærri, nema við getum sett honum einhverjar reglur – hömlur á skaðann sem að fyrirtækin geta valdið. Alþjóðlegu reglurnar sem munu verða gefnar út núna fljótlega, setja fyrirtækjunum þær reglur að þau munu þurfa að skila tölum með kolefnisjöfnuð. Það þarf að setja reglur um hömlur og koma sérhagsmununum frá völdum. Við þurfum að hugsa um almenning fyrst, og stéttarfélögin er það afl sem getur haft mikil áhrif á allan almenning í gegnum grasrótina,“ sagði Ásgeir Brynjar Torfason að lokum.

Frétt af vef Sameykis.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí