Vg mælist minni en Miðflokkurinn

Fylgi Vg mælist minna en Miðflokksins í nýrri könnun Maskínu, aðeins 6,1% en flokkurinn fékk 12,6% í kosningunum 2021 og 16,9% árið 2017. Fylgið er því helmingurinn af því sem var í síðustu kosningum og þriðjungur af því sem var áður en Katrín Jakobsdóttir myndaði núverandi ríkisstjórn. Á sama tíma mælist fylgi Miðflokks Sigmundar Davíðs með 6,4%. Þetta er ekki marktækur munur, en samt er þetta athygli vert. Hefur ekki gerst frá stofnun Miðflokksins.

Sé miðað við Sósíalista þá munar aðeins 0.9 prósentum á fylgi Vg og Sósíalistaflokksins í þessari könnun. Fyrir tveimur mánuðum mældist fylgi þessara flokka jafnt.

Ríkisstjórnin kemur afleitlega út í þessari könnun. Samanlagt hafa stjórnarflokkarnir tapað 16 þingmönnum, 42% fjöldans. Samanlagt fylgi flokkanna mælist aðeins rúm 35%. Allir flokkarnir eru við neðstu mörk sem þeir hafa mátt þola í könnunum. Ríkisstjórnin er mikil raun fyrir flokkanna.

Samfylkingin heldur áfram flugi sínu, mælist nú með 27,3%. Er miklu stærri en Sjálfstæðisflokkurinn sem mælist aðeins með 19,2%. Það er því fyrst og fremst Samfylkingin sem nýtur falls ríkisstjórnarinnar, minnkandi trausti á hana og fylgi stjórnarflokkanna. Nema þetta sé öfugt, að vöxtur Samfylkingarinnar grafi undan ríkisstjórninni.

En svona skiptast þingmenn samkvæmt könnuninni (innan sviga breyting frá núverandi þingheimi, eftir flokkaflakk):

Ríkisstjórn:
Sjálfstæðisflokkur: 12 þingmenn (-5)
Framsóknarflokkur: 6 þingmenn (-7)
Vg: 4 þingmenn (-4)
Ríkisstjórn alls: 22 þingmaður (-16)

Hin svokallaða frjálslynda miðja:
Samfylkingin: 18 þingmenn (+12)
Píratar: 7 þingmenn (+1)
Viðreisn: 6 þingmenn (+1)
Hin svokallaða frjálslynda miðja: 31 þingmaður (+14)

Ný-hægri andstaðan:
Flokkur fólksins: 3 þingmenn (-3)
Miðflokkurinn: 4 þingmenn (+2)
Ný-hægri andstaðan: 7 þingmenn (-1)

Stjórnarandstaða utan þings:
Sósíalistaflokkurinn: 3 þingmenn (+3)

Á myndinni má sá niðurstöður könnunar Maskínu. Könnunin fór fram dagana 4. til 16. maí 2023 og voru 1.726 svarendur sem tóku afstöðu til flokkanna.

Sem fyrr segir er samanlagður þingmannafjöldi ríkisstjórnarflokkanna aðeins 22 þingmenn, vantar tíu til að ná meirihluta. Áður en þessi ríkisstjórn var mynduð var hér ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Björt framtíð er dauð en samanlagður þingstyrkur Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar aðeins 18 manns, það vantar fjórtán menn til að ná þingmeirihluta. Fyrir þá stjórn sat hér ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar Sigmundar Davíðs, sem er í Miðflokknum í dag. Ef við setjum þessa þrjá flokka saman, Sjálfstæðisflokk, Framsókn og Miðflokk, þá hafa þeir í þessari könnun 22 þingmenn, vantar tíu upp á meirihluta. Þar áður var hér ríkisstjórn Samfylkingar og Vg, en þessir flokkar hafa líka 22 þingmenn í þessari könnun og vantar því tíu upp á meirihluta. Á undan henni var hé ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar en þótt þetta séu stærstu flokkarnir í könnuninni ná þeir aðeins 30 þingmönnum samanlagt, vantar tvo upp á meirihluta.

Ef við förum aftar og skoðum ríkisstjórnarsamstarf sögunnar út frá því að Samfylkingin sé Alþýðuflokkur og Vg Alþýðubandalag þá voru þessir flokkar saman í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, áður en Alþýðuflokkurinn myndaði stjórn með Sjálfstæðisflokki 1991. Saman hafa Samfylkingin, Framsókn og Vg 28 þingmenn og vantar fjóra upp meirihluta. Ríkisstjórn Steingríms tók inn Borgaraflokk Alberts Guðmundssonar til að ná meirihluta, og arftakar þessara flokka gætu tekið Viðreisn inn, annan klofningsflokk úr Sjálfstæðisflokknum.

Annar kostur úr sögunni er Nýsköpunarstjórnin, sem í dag væri Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Vg með 34 þingmenn.

Núverandi Reykjavíkurmódel með Samfylkingu, Framsókn, Pírötum og Viðreisn gæfi 37 þingmenn. Reykjavíkurmódelið þar á undan með Samfylkingu, Pírötum, Viðreisn og Vg hefur 34 þingmenn í þessari könnun. Upphaflega Reykjavíkurmódelið, þ.e. R-listinn með Samfylkingu, Vg, Framsókn og Kvennalista, gefur aðeins 28 þingmenn enda er enginn Kvennalisti á þingi.

Það er því líklegt að næsta ríkisstjórn verði nokkuð sem ekki hefur sést áður, svipað og á við um núverandi ríkisstjórn. Hún var óvanaleg súpa, nokkuð sem enginn hafði kannski óskað sér. En það skrítna gerðist að þjóðin gaf henni aftur brautargengi í næstu kosningum, nokkuð sem margir sjá eftir í dag ef marka má þessa könnun.

En ef við skoðum breytinguna í þessari könnun frá kosningum þá er hún þessi:

Þessir bæta við sig:
Samfylkingin: +17,4 prósentur
Píratar: +2,4 prósentur
Sósíalistar: +1,1 prósentur
Miðflokkur: +1,0 prósentur

Þessi standa í stað:
Viðreisn: +0,8 prósentur

Þessir missa fylgi:
Framsókn: -7,3 prósentur
Vg: -6,5 prósentur
Sjálfstæðisflokkur: -5,2 prósentur
Flokkur fólksins: -3,2 prósentur

Ef meta á áhrifin af formennsku Kristrúnar Frostadóttur í Samfylkingunni er best að miða við júlí í fyrra, síðasta mánuðinn áður en hún tilkynnti framboð sitt. Þá eru breytingarnar þessar, sem við getum kallað Kristrúnar-áhrifin á fylgi flokkanna:

Þessir bæta við sig:
Samfylkingin: +16,4 prósentur

Þessi standa í stað:
Viðreisn: +0,8 prósentur
Miðflokkur: +0,4 prósentur
Sósíalistar: +0,1 prósentur

Þessir missa fylgi:
Flokkur fólksins: -1,3 prósentur
Vg: -1,6 prósentur
Píratar: -1,7 prósentur
Sjálfstæðisflokkur: -5,2 prósentur
Framsókn: -8,0 prósentur

Samkvæmt þessu sækir Kristrún mest fylgi til þeirra kjósenda sem gátu hugsað sér að kjósa Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn áður en hún bauð sig fram til formanns.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí