Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að senda fjögurra manna fjölskyldu, þar af tvö börn sem eru 5 og 6 ára, úr landi á þriðjudaginn. Verða þau send fyrst til Spánar, þaðan sem þau komu, og þaðan til Líbíu.
Fjölskyldan er frá Líbíu, en fjölskyldufaðirinn starfaði í fíkniefnalögreglunni þar í landi. Hann tók þátt í að stöðva umfangsmikið fíkniefnasmygl í gegnum skipaflutninga þar í landi, og eftir það var líf hans í stórhættu. Var meðal annars gert tilraun til að drepa hann, og fjölskyldu hans með því að kveikja í húsinu þeirra. Sá hann sér ekki annað fært en að koma sér og fjölskyldunni sinni úr landi. Komust þau til Spánar fyrst, og þaðan hingað til lands.
Íslensk stjórnvöld ætla, eins og áður segir, að senda fjölskylduna til baka til Spánar á þriðjudaginn. En þegar þangað er komið munu þau að öllum líkindum vera send aftur til Líbíu, en þau brutu ákveðna reglu um tveggja vikna dvalarleyfi þar í landi sem gerir það að verkum að þeim verði brottvíst þaðan til upprunalandsins.
Þann 12. júlí myndi fjölskyldan fá rétt á efnislegri meðferð samkvæmt íslenskum útlendingalögum. En brottvísunin kemur rétt áður en það gerist.
Ástandið í Líbíu
Ástandinu í Líbíu er ekki hægt að lýsa öðruvísi en sem hreinni skelfingu. En eftir aðgerðir NATO í landinu árið 2011, sem leiddi til dauða þjóðhöfðingjans Muamar Gaddafi, hefur algjört stjórnleysi ríkt í landinu. Er landinu mest megnis stjórnað af hinum ýmsu stríðsherrum sem berjast innbyrðis á blóðugan hátt.
(Myndin er af loftárásum NATO í Líbíu árið 2011)