Á næstu tveimur árum mun vagnafloti Strætó hrynja. Tæplega 70% allra vagna í notkun eru 8 ára eða eldri, en líftími þeirra er 7-10 ár. Félagið fær ekkert fjármagn til að endurfjárfesta í vögnum. Fulltrúar allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vilja auka niðurgreiðslur til rútufyrirtækja fyrir að keyra vagna.
Í fyrirspurn sem undirritaður sendi inn til umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur var óskað eftir svörum vegna vagnaflota Strætó. Spurt var um hversu marga vagna þyrfti að endurnýja og hver áætlaður kostnaður væri vegna þess. Auk þess var óskað eftir svörum hvers vegna ekki hafi verið ráðist í nein vagnakaup og hvenær mætti búast við því að slíkt yrði gert.
Það vantar 40 vagna á þessu og næsta ári
Svar barst síðan frá framkvæmdastjóra Strætó, Jóhannesi R. Rúnarssyni. Í því kemur fram að mikil þörf sé fyrir endurnýjun vagnaflota Strætó þar sem stór hluti flotans sé „vel kominn til ára sinna.“ Þörf fyrir endurnýjun á þessu og næsta ári væru þannig allt að 40 vagnar og síðan 6 vagnar á ári eftir það miðað við núverandi og fyrirhugaðan akstur. Kostnaður við slík vagnakaup gæti numið allt að 2,5 milljörðum króna þar sem um er að ræða vagna sem knúnir eru endurnýjanlegum orkugjöfum.
Úreltir vagnar – samt verða ekki fleiri keyptir
Í lok svarsins kemur svo fram að af 66 vögnum sem eru í notkun í dag eru 45 þeirra 8 ára og eldri. Líftími strætisvagna er 7-10 ár og eykst viðhaldskostnaður umtalsvert eftir fyrstu 6-7 árin. Það er því ljóst að á næstu tveimur árum eru tæplega 70% vagna Strætó að enda sinn líftíma. Þrátt fyrir það á ekki að fjárfesta í nýjum vögnum.
Jóhannes segir að „rekstur Strætó hafi verið í járnum“ eftir heimsfaraldur og stríð í Úkraínu. Tekjurnar hafi þannig dregist umtalsvert saman og verðhækkanir á olíu og öðrum aðföngum aukist verulega. Það sé vegna þess sem félagið hafi ekki haft neitt fé til aflögu til kaupa á nýjum vögnum.
Rétt er að benda á að þau sveitarfélög sem reka Strætó bs. gætu á hvaða tímapunkti sem er ákveðið að styrkja félagið til vagnkaupa, en kjósa að gera það ekki. Hugmyndafræðin um að Strætó megi ekki vera rekinn með of miklu „tapi“ ríkir enn, meira að segja hjá fulltrúa Pírata í stjórn.
Píratar styðja útvistun en vagnstjórar upplifa mikið óöryggi
Ef að það á ekki að kaupa nýja vagna þrátt fyrir þörfina er bara einn valkostur eftir í stöðunni: Útvistun. Stjórn Strætó hefur á síðustu mánuðum unnið að því að bjóða út þjónustu til einkafyrirtækja. Í stað þess að reiða út fé til vagnakaupa og starfsfólks er því líklegasta niðurstaðan að Strætó greiði verktökum fyrir að reka og keyra vagna.
Í stjórn Strætó bs. hefur fulltrúi Reykjavíkur og Pírati, Alexandra Briem setið, og stutt útvistun sem margir hafa kallað einkavæðingu að innan. Fyrirtæki eins og Hópbílar og Kynnisferðir hafa sinnt slíkri verktöku á hluta vagnaflotans hingað til. Þau fá þannig niðurgreiðslu frá sveitarfélögum fyrir að keyra Strætó.
Vagnstjóri sem undirritaður hefur rætt við og keyrir fyrir Strætó hefur miklar áhyggjur af stöðunni. Hann upplifir ásamt starfsfélögum sínum mikið óöryggi í starfi. Ef fram fer sem horfir verði þeir neyddir til að hætta eða þiggja störf á verri kjörum hjá verktökum. Launin þar eru umtalsvert lakari.
Hér má sjá allt svarið frá Jóhannesi, framkvæmdastjóra Strætó.