Krakkar í unglingavinnunni látnir vinna í leikskólum: „Mér var bara sagt að mæta á leikskólann“

Borgarmál 26. jún 2023

Ungmenni í vinnuskóla Reykjavíkur eru látin vinna á leikskólum. Í Vesturbæ voru allir 10. bekkingar látnir fylla í þau störf. Enginn flokkstjóri er á staðnum og kennslan er engin. Unga fólkið hefur þar að auki lítil vinnuréttindi og er á mun lægri launum en lágmark kveður á um í kjarasamningum. Borgaryfirvöld ákváðu að frysta laun ungmenna í ár.

Úlfihildur Elísa Hróbjartsdóttir er fulltrúi í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. Hún var gestur í þættinum Sanna Reykjavík sl. föstudag, og kom til að ræða vinnuskólann og mótmæli ráðsins vegna frystingu launa hjá ungmennum. Hún er meðal þeirra sem voru send á leikskóla til vinnu.

Engin kennsla og enginn flokkstjóri

„Ég fékk semsagt bara að vita á föstudeginum, og ég átti að byrja á mánudegi, að ég hefði fengið vinnu yfir höfuð, og ég yrði sett á leikskóla. Svo var mér bara sagt að mæta á leikskólann. Það voru held ég tvö önnur ungmenni en þau voru ekki með mér á deild. Ég var bara sett beint á eina deild með tveimur öðrum kennurum. Ég fékk enga kennslu eða neitt. Ég var bara sett beint inn. Það var enginn flokkur eða flokstjóri. Við vorum bara þrjú,“ segir Úlfhildur.

Spurð hvort hún viti til þess að þetta hafi verið gert í fleiri leikskólum svarar hún: „Já, það var enginn flokkur fyrir 10. bekk sem á að vera í garðyrkju. Það var bara á leikskólunum. Þannig að það eru sirka þrír á hverjum leikskóla í Vesturbænum.“

Mikið álag fyrir lítil laun

Úlfhildur lýsir síðan aðstæðum á leikskólanum. Álagið var mikið og hún var látin passa þriggja ára börn. Viðmót yfirmannsins við ósk hennar um að vera frekar ráðin beint af leikskólanum, og fá þar með hærri laun, var ekki jákvætt.

„Þetta var mjög erfið vinna. Ég var með þriggja ára börn að passa þau allan daginn með tveimur öðrum kennurum. Við lentum alveg í því að missa stjórn á þeim, sem var mjög erfitt. Maður var ógeðslega þreyttur eftir vinnuna. Bara búin á því. Ég var eiginlega búin að ljúga að mér að ég væri að fara fá svona 1500 (krónur) á tímann, því þetta var bara það erfið vinna. Það var bara mjög leiðinlegt svo að heyra af laununum, eins og það væri ekki tekið mark á vinnu manns.“

Hún ræddi við yfirmanninn sinn á leikskólanum og spurði hvort hún gæti ekki sótt beint um vinnu á leikskólanum. Svörin við því voru ekki jákvæð.

„Þá sagði hún að þú þyrfti að vera 18 (ára). Ef þú gætir ekki höndlað að vinna á leikskólanum gegnum vinnuskólann þá gætir maður ekki höndlað ábyrgðina sem að væri fólgin í því að vera liðsauki á leikskóla.“

Látin sinna öllum verkefnum

Ég held þetta hafi verið svona 20-22 börn með þá tveim leikskólakennurum og svo mér,“ segir hún aðspurð um fjölda barna og starfsfólks á deildinni. Hún var látin sinna öllum tilfallandi verkefnum. Var úti með börnin, með þau í samverustund, svæfði þau, passaði þau og hjálpaði þeim í matsalnum. Kennslan var engin á fyrsta degi, heldur var hún bara sett á deildina og látin redda sér.

Vinnuskólinn er ekki að segja satt

Á heimasíðu vinnskóla Reykjavíkur kemur fram að meginhlutverk vinnuskólans sé að „veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggileg sumarstörf og fræðslu í öruggu starfsumhverfi.“ Miðað við lýsingar Úlfhildar er vinnuskólinn að brjóta á hlutverki sínu. Fræðslan er engin og starfsumhverfið er ekki öruggt. Óljóst er hver ber ábyrgð á öryggi barna á leikskólanum þegar ungmenni sjá um þau.

Jafnframt er tekið fram í lýsingu vinnuskólans á hlutverki sínu að „öllum nemendum í 8. 9. og 10. bekkja býðst að koma til starfa við fjölbreytt verkefni sem flest snúa að garðyrkju og umhirðu í borginni.“ Í lýsingunni er sumsé hvergi tekið fram að störf í vinnuskólanum feli í sér vinnu á leikskóla, sem inniheldur enga fræðslu, með litlu öryggi í starfsumhverfi.

Réttindi í vinnuskólanum lítil sem engin

Eins og áður hefur verið fjallað um á Samstöðinni, eru réttindi ungmenna í vinnuskólanum lítil sem engin. Launin eru ákvörðuð einhliða af borgaryfirvöldum, veikindaréttur er enginn og ungmennin mega ekki leggja niður störf til að krefjast bættra kjara. Rökin fyrir því hafa verið að ekki sé um hefðbundna vinnu að ræða. Þetta sé vettvangur fyrir unglinga til að fræðast og fóta sig rólega í fyrstu vinnunni.

En miðað við það að fjöldi ungmenna sé látinn sinna leikskólastörfum, og þannig kastað í djúpu laug vinnumarkaðarins, má spyrja hvort ekki sé verið að brjóta gróflega á vinnuréttindum? Er borgin að reyna koma sér undan því að manna leikskóla og greiða mannsæmandi kjör með því að nýta sér unglingavinnuna?

Fyrir áhugasama má sjá allan þáttinn og viðtalið við Úlfhildi í spilaranum hér að neðan:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí