Það er óhætt að segja að kjör unglinga sem starfa í Vinnuskóla Reykjavíkur í sumar séu arfaslæm. Laun þeirra voru ákveðin á fundi borgarráðs í gær en þar var ákveðið að hækka þau ekkert frá því í fyrra. Verðbólga mælist nú um 10 prósent svo launin, sem voru léleg fyrir, duga ekki til mikils.
Kaup þeirra sem hafa lokið 8. bekk, um 13-14 ára unglingar, er 711 krónur á tímann. Launin hækka svo örlítið eftir aldri. Unglingar í í 9. bekk eru með 947 krónur á tímann. Þeir sem hafa lokið grunnskóla fá svo 1.184 krónur á tímann.
Heildarlaun unglinga í 8. bekk eru ríflega 44 þúsund krónur, um 117 þúsund fyrir þau sem eru í 9. bekk og þau sem eru í 10. bekk fá 138 þúsund. Þrátt fyrir þessi lélegu laun þá er talsverður fjöldi krakka sem vinna í unglingavinnunni í Reykjavík í sumar, samtals um 3000 börn.
Og þau eru ekki sátt. Ungmennaráð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða fordæmir á Instagram ákvörðun umhverfis og skipulagssviðs um að hækka ekki laun. „Unglingar í vinnuskólanum hafa nú unnið í fjóra daga án þess að vita launin sín, þetta er hvorki boðlegt né sanngjarnt. Ungmennin hafa hvorki verkfallsrétt né veikindarétt. Viljum við kenna þessu unga fólki, sem er nú að kynnast vinnumarkaðinum að þetta sé eðlilegt? Erum við að senda þeim réttu skilaboðin með því að segja þeim of seint frá laununum sínum, borga þeim of lítið og skerða þau af réttindum sínum,“ segir í yfirlýsingu Ungmennaráðsins.