Aðeins 11% segja borgina standa sig vel í húsnæðismálum

Samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Samtök leigjenda segja aðeins 10,9% fólks að Reykjavíkurborg standi sig mjög eða frekar vel í uppbyggingu húsnæðismála. Örlítið færri telja að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri standi sig mjög eða frekar vel, 10,6%. Og ekki er almenningur ánægðari með önnur sveitarfélög. Aðeins 9,6% þátttakenda í könnuninni sögðu sveitarfélögin standa sig mjög eða frekar vel í uppbyggingu húsnæðismála.

Samstöðin hefur greint frá útkomu ríkisstjórnarinnar og Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðarráðherra, sjá hér: Aðeins 5% finnst ríkisstjórnin standa sig vel í húsnæðismálum.

Ef við stillum upp stöðu þeirra stofnana og einstaklinga sem spurt var um er niðurstaðan þessi. Fyrst er samtala þeirra sem sögðu stofnanirnar eða einstaklinga standa sig mjög eða frekar vel í húsnæðismálum, þá þau sem sögðu þau standa sig mjög eða frekar illa og loks þetta samtals:

Spurt um:VelIllaNettó
Önnur sveitarfélög+9,4%-45,4%-36,0%
Sigurður Ingi Jóhannsson+7,7%-59,8%-52,1%
Reykjavíkurborg+10,9%-63,4%-52,5%
Dagur B. Eggertsson+10,6%-65,6%-55,0%
Ríkisstjórnin+5,3%-67,1%-61,8%

Þetta er náttúrlega afleit niðurstaða fyrir þau sem eiga að tryggja almenningi gott, ódýrt og öruggt húsnæði. Það er ekki oft sem niðurstaðan er svona neikvæð. Þegar spurt er um traust á stjórnmálafólki fær fólk sjaldan svona slæma útkomu: Þetta er fyrir neðan pólitískt frostmark. Ríkisstjórnin, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin, innviðaráðherra og borgarstjóri hafa ekkert traust almennings til lausnar á húsnæðiskreppunni. Sem þó er líklega mest aðkallandi málið sem þessi fyrirbrigði standa frammi fyrir.

Það á það sama við um alla tekjuhópa, aldurshópa, kyn, búsetu og menntun: Í öllum hópum er meirihluti sem segir að ríkisstjórnin, Reykjavíkurborg, innviðaráðherra og borgarstjóri standi sig illa. Þegar spurt er önnur sveitarfélög fjölgar þeim sem svara hvorki né, líklega vegna þess að færri telja sig geta lagt mat á frammistöðuna. En alls staðar er yfirgnæfandi fleiri sem segja þessar valdastofnanir og valdamenn standa sig illa í húsnæðismálum.

Mestu frávikin eru þegar kemur að stjórnmálaflokkunum. Á meðan 7,7% af heildinni segja að Sigurður Ingi standi sig vel þá segja 16,7% af stuðningsfólki ríkisstjórnarinnar að hann standi sig vel og 30,6% af Framsóknarfólki. Og á meðan 10,6% af heildinni segja að Dagur B. Eggertsson standi sig vel þá segja 20,5% af kjósendum meirihlutaflokkanna í borginni að hann standi sig vel og 26,6% af Samfylkingarfólki. En þótt þeir félagar rísi í þessum hópum þá er það eftir sem áður svo að fleirum í Framsókn finnst Sigurður Ingi standa sig illa en vel og það sama á við um Samfylkinguna og Dag B.

Það er óumdeilt og almennt viðurkennt að þeir standa sig illa. í raun. mjög illa.

Sama má sjá þegar spurt er um ríkisstjórn og Reykjavík. Af heildinni segja 5,3% að ríkisstjórnin standi sig mjög eða frekar illa við uppbyggingu húsnæðismála en meðal stuðningsfólks flokkanna lyftist þetta upp í 13,8%. Miklu fleiri af stuðningsfólki stjórnarflokkanna finnst ríkisstjórnin standa sig illa, 44,1%.

Í heildina eru 10,9% á því að Reykjavík standi sig illa en meðal kjósenda meirihlutaflokkanna er hlutfallið 19,1%. En af þeim hópi eru 48,0% á því að Reykjavík standi sig illa.

Stundum kvarta borgaryfirvöld yfir könnunum um frammistöðu þeirra þegar allir landsmenn eru spurðir, vilja halda því fram að neikvæð afstaða fólks utan höfuðborgarinnar til borgarinnar valdi því að útkoma sé slæm. Og það kemur fram í þessari könnun. 7,3% fólks utan Reykjavíkur segir borgina standa sig vel í húsnæðismálum en 16,2% borgarbúa. Og hlutföllin eru nánast þau sömu hjá Degi B., 7,4% á móti 16,4%. En eftir sem áður er meirihluti borgarbúa á því að borgin og Dagur standi sig illa, 58,5% og 59,4%.

Í könnuninni var spurt: Hversu vel eða illa finnst þér Dagur B. Eggertsson hafa staðið sig í uppbyggingu húsnæðismála? Hversu vel eða illa finnst þér Reykjavíkurborg hafa staðið sig í uppbyggingu húsnæðismála? Og: Hversu vel eða illa finnst þér önnur sveitarfélög hafa staðið sig í uppbyggingu húsnæðismála?

Könnunin var gerð dagana 15.-22. júní síðastliðinn og voru svarendur 966.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí