Samkvæmt könnun Maskínu segja aðeins 5,3% landsmanna að ríkisstjórnin standi sig mjög eða frekar vel í uppbyggingu húsnæðismála. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fær aðeins skárri útkomu, 7,7%, sökum þess að Framsóknarfólk telur hann standa sig betur en ríkisstjórnin.
En í heild er könnunin afleit einkunn á árangur ríkisstjórnarinnar. 60% landsmanna finnst Sigurður Ingi standa sig mjög eða frekar illa og 67% segja það sama um ríkisstjórnina.
Og það er engin munur eftir kynjum, aldri, búsetu, menntun eða tekjum. Afgerandi meirihluti landsmanna finnst Sigurður Ingi og ríkisstjórnin standa sig illa í húsnæðismálum. Það er helst að dragi úr slæmum einkunnum þegar kemur að fylgi við flokka.
Ef aðeins er tekið fólk sem segist vilja kjósa einhvern ríkisstjórnarflokkana segjast tæp 14% að ríkisstjórnin standi sig mjög eða frekar ve en rúm 44% að hún standi sig mjög eða frekar illa. Hlutfallið hjá kjósendum annarra flokka þannig að 1,5% finnst ríkisstjórnin standa sig mjög eða frekar illa en rúm 78% mjög eða frekar illa.
Hjá Sigurði segja tæp 31% Framsóknarmanna hann standa sig mjög eða frekar vel en tæp 27% að hann standi sig mjög eða frekar illa. Meðal alls almennings eru hlutföllin tæp 8% á móti tæpum 60%. Og þegar 31% Framsóknarmanna segja að Sigurður Ingi standi sig mjög eða frekar vel þá segja aðeins tæp 12% þeirra að ríkisstjórnin standi sig mjög eða frekar vel. Þegar þeirra andlit kemur á spurninga verða Framsóknarmenn mildari í dómum sínum.
Að öðru leyti ber allt að sama brunni. Almenningi finnst Sigurður Ingi og ríkisstjórnin standa sig illa í húsnæðismálum. Það er ívið verri útkoma í þéttbýlinu fyrir sunnan fyrir ríkisstjórnina og meðal tekjulægri, en alls staðar er yfirgnæfandi meirihluti á því að ríkisstjórnin og Sigurður Ingi standi sig illa.
Spurt var: Hversu vel eða illa finnst þér ríkisstjórnin hafa staðið sig í uppbyggingu húsnæðismála? Og: Hversu vel eða illa finnst þér Innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hafa staðið sig í uppbyggingu húsnæðismála?
Niðurstaðan varð sú að 5,3% sögðu að ríkisstjórnin hefði staðið sig mjög eða fremur vel en 67,1% mjög eða fremur illa. 27,7% sögðu ríkisstjórnina hafa staðið sig hvorki vel né illa.
Niðurstaðan varðandi Sigurð Inga sérstaklega varð sú að 7,7% sögðu að Sigurður Ingi hefði staðið sig mjög eða fremur vel en 59,8% mjög eða fremur illa. 32,5% sögðu ríkisstjórnina hafa staðið sig hvorki vel né illa.
Könnunin var gerð dagana 15.-22. júní síðastliðinn og voru svarendur 966.