Aðgerðir stjórnvalda fjarlægja fólk úr biðröðinni eftir húsnæði

Í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að lán til íbúðakaupa almennings hafa ekki verið minni síðan vorið 2014. Í mai tóku heimilin 5 milljarða króna að láni á verðtryggðum vöxtum en drógu saman óverðtryggð lán sín um 2 milljarða króna. Ný lán voru því aðeins tæplega 3 milljarðar króna og hafa ekki verið lægri síðan í efnahagslægðinni eftir Hrun.

Og þegar færri vilja, eða geta, taka lán þá gengur hægar að selja. Það veldur því að fleiri íbúðir eru í boði, þær eru lengur í sölu. Aukið framboð á íbúðamarkaði er því ekki vegna þess að meira er framleitt af íbúðum til að mæta vaxandi þörf fyrir húsnæði. Nei, það er minna framleitt en það hefur verið þrengt svo að lánamöguleikum einstaklinga, bæði með hækkun vaxta og þrengingu greiðslumats, að færri hafa möguleika á að kaupa og því gengur salan hægar. Og þá má benda á að framboðið aukist, það eru fleiri íbúðir á söluskám fasteignasala. En það segir ekkert til um hvort hinn svokallaðu markaður sé að uppfylla þörf almennings fyrir húsnæði.

Í raun vita allir að svo er ekki. Verð á leigumarkaði spennist upp, fólk býr þrengra, ungt fólk býr lengur heima, iðnaðarhúsnæði er leigt út sem íbúðir. Braggahverfin eru snúa aftur, klárt merki um langvarandi húsnæðiskreppu.

Tökum dæmi: Það er vöruskortur og maturinn í búðarhillunum hverfur fljótt. Kaupmenn hækka því verðið en þörfin er svo mikil að fólk lætur það yfir sig ganga. En þrátt fyrir hátt verð berast ekki fleiri vörur í búðirnar. Framleiðendur halda að sér höndum, vilja frekar fá ógnarhátt verð fyrir litla framleiðslu en sæmilegt verð fyrir mikla framleiðslu. Vegna ólgu í samfélaginu þar sem hækkun vöruverðs skerðir kaupmátt grípa stjórnvöld til þess að takmarka aðgengið að búðunum. Sérstakir greiðslumatsverðir eru settir við innganginn og látnir kíkja í veski neytenda. Aðeins þeim er hleypt inn sem eiga mikinn pening. Og þegar það virkar ekki til lækkunar vöruverðs er viðmiðið hækkað, aðeins þau sem eru sterkefnuð fá að kaupa í matinn. Hin eru rekin burt og fá ekkert að kaupa. Hafa engar lausnir aðrar en að fara með þá litlu peninga sem þau eiga á veitingastaði sem menn sem eru sterkefnaðir reka, menn sem fá að fara í búðirnar að kaupa í matinn en selja hann svo með ógnarálagningu stykki fyrir stykki.

Þetta er dæmisaga um íslenska húsnæðismarkaðinn og aðgerðir stjórnvalda. Aðgerðirnar bæta ekki ástandð, skaffa ekki ódýrt og öruggt húsnæði, heldur miðast við að forðast ofhitnun húsnæðismarkaðar sem valdi því að mælingar á verðbólgu sprengi skalann. Stjórnvöld fæla því fólk frá húsnæðismarkaði svo eftirsókn þeirra eftir þaki yfr höfuðið valdi því ekki að mælarnir slái í botn. Það er fullkominn markaðsbrestur á íslenskum húsnæðismarkaði eins og varðandi framleiðslu á neysluvörum í Sovétríkjunum á sínum tíma. En til að forða því að vörur klárist og biðraðir myndist hafa íslensk stjórnvöld gripið til þess ráðs að taka fólkið í biðröðinni og færa það í gúlag leigumarkaðarins. Og svo halda kommissararnir glærusýningar til að sannfæra almenning um að kerfið virki.

Þetta má lesa í mánaðarskýrslu HMS, auðvitað ekki með þessum orðum heldur á venjubundinni stjórnsýslensku þar sem reynt er að láta líta út fyrir að hryllilegt ástand sé harla gott, að aðgerðir stórnvalda virki og við séum á leið til bjartrar framtíðar.

Myndin er af örtröð fyrir utan búð í Sovétríkjunum föllnu, sem féllu líklega fyrst og fremst vegna þess að áætlanabúskapurinn náði ekki að þjóna neytendamarkaði með nauðsynjar þótt hann hafi náð að iðnvæða landið. Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi er svona, nema hvað stjórnvöld hafa fjarlægt fólkið á myndinni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí