„Breytingar eru víða í farvatninu. Íslenskir stjórnmálamenn viðurkenna loks ógöngur sínar í taumlausu innstreymi „flóttamanna“. Í erlendum blöðum er bent á pólitískar kollsteypur í Evrópu, einnig í röðum þeirra sem staðið hafa lengst til vinstri. Foringjar þar eru fordæmdir fyrir að ýta hvarvetna í Evrópu undir stórsókn „hægri popúlisma“,“ skrifar Davíð Oddsson í leiðara Mogga dagsins.
Davíð hefur í mörg ár gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn frá ysta hægri. Hann hefur varið Bolsonaro fyrrum forseta Brasilíu í leiðurum, ekki leynt aðdáun sinni á Donald Trump, skrifað hjartahlý minningarorð um Silvio Berlusconi, mært Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu og tekið undir málflutnings Svíþjóðardemókrata, Sannra Finna og annarra flokka nýja hægrisins.
„Bent er á mikla fylgisaukningu RN undir forystu Marine Le Pen í sömu mund og Macron forseti missir öll tengsl við þjóð sína, og eins á verulega sókn AfD í Þýskalandi á meðan flokkur Olafs Scholz kanslara á erfitt með að finna fjölina sína,“ heldur Davíð áfram. „Þá má benda á nýja stjórn í Finnlandi sem kynnt hefur öflug og ábyrg viðbrögð eða nýlega stjórn í Svíþjóð sem hefur þegar breytt um áherslur.“
Og þetta er engin ímyndun í Davíð. Á sama hátt og sósíaldemókratar misstu fylgi til popúlískra hægri flokka eftir Hrun, fólks sem upplifði sig svikið af alþjóðavæddum kapítalisma sem lofaði öllum betri tíð en stóð engan veginn við það, þá má sjá að það fjarar líka hratt undan hefðbundnum hægri flokkum í álfunni. Leið þeirra til valda er annað hvort í gegnum svokallaðar breiðar ríkisstjórnir með sósíaldemókrötum eða í samstarfi við nýja hægrið. Og þá þurfa hefðbundnari flokkarnir að taka upp stefnu nýja hægrisins í flóttamannamálum.
„Mörgum þykir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi brugðist skelfilega seint við sambærilegu ástandi og Finnar taka nú á og var þeirra staða þó ekki jafn gjörtöpuð og fékk að gerast hjá okkur. Danskir jafnaðarmenn hafa tekið nokkuð á sínum vanda, en við lyftum ekki litla fingri,“ skrifar Davíð.
Skilaboðin virðast vera þau til forystu Sjálfstæðisflokksins að eina leiðin að hreinni hægri stjórn á Íslandi, sem verndar hagsmuni hinna ríku og valdamiklu, sé að keyra upp útlendingamál sem helsta viðfangsefni stjórnmálanna, að halda því fram að allt væri gott ef útlendingar hefðu ekki skemmt fyrir.
Samstöðin benti á í gær hversu fjarri það er að þessi málflutningur haldi vatni, sjá hér: Er þetta rétt hjá Bjarna, að flóttafólk sé að sliga kerfin? Ef vandinn er aukið álag á innviði vegna fólksfjölgunar þá er ekki hægt að meta áhrif hælisleitenda hærra en 1,3% af vandanum, það er þeirra sem ekki var sérstaklega boðið hingað til lands af Sjálfstæðisflokknum. Lausnin á veikum grunnkerfum er því ekki að skrúfa fyrir aðgengi þessa fólks að landinu, kerfin verða jafn veik eftir sem áður.
En þetta er líka staðan annars staðar í Evrópu. Þar snúast stjórnmálin um innflytjendamál þótt vandi álfunnar sé í dag miklum fremur aukin útgjöld til hermála sem grafa undan getu ríkisvaldsins til að veita velferðarþjónustu. Og vandi Bandaríkjanna eru ekki innflytjendur, þótt Trump segi það. Vandi Bandaríkjanna er gerspillt stjórnvöld sem eru í vasanum á auðvaldinu.