Borgarstjóri ásamt meirihlutanum í borgarstjórn hafnaði tillögu sósíalistaflokksins um að styðja Samtök Leigjenda í þeirri viðleitni í að koma leiguíbúðum Heimstaden inn í nýtt samvinnufélag í eigu leigjenda. Eins og alþjóð er kunnugt ætlar Heimstaden að selja eignasafn sitt á Íslandi á næstunni, alls 1667 íbúðir. Mikil örvænting hefur gripið um sig hjá leigjendum þar sem margir hverjir hafa þegar fengið uppsagnarbréf frá félaginu. Samtök Leigjenda á Íslandi hafa lýst því yfir að unnið verði að því öllum árum að koma leigufélaginu í hendur leigjenda í formi samvinnufélags og hafa leitað eftir liðsinni lífeyrissjóða og ríkis í þeim efnum.
Sósíalistaflokkurinn í borgarstjórn ákvað að styðja frumkvæðið með því að óska eftir því við meirihlutann í Reykjavíkur að borgaryfirvöld veittu Samtökum Leigjenda stuðning eða liðsinni í viðleitni þeirra við að tryggja hag leigjenda hjá Heimstaden. Andrea Helgadóttir varaborgarfulltrúi Sósíalistalfokksins flutti tillöguna sem gengur út á að borgarritara yrði falið að ræða við samtökin með það fyrir augum að skoða hvað Reykjavíkurborg gæti mögulega gert til að auðvelda það markmið að leigjendur Heimstaden eignist sína eigin leigusamninga, “það er að segja kaupa þá úr þrælavistinni”.
Tók Alexandra Briem borgarfulltrúi Pírata til máls og sagði það óeðlilegt að borgin styddi ein samtök umfram önnur og ekki réttlætanlegt að setja milljarða af borgarsjóði sem ein tiltekin samtök myndu hagnast á. “Af hverju ætti að styðja Samtök Leigjenda, frekar en önnur samtök sem, svo sem stúdenta, öryrkja eða samtök sem einhver annar myndi vilja stofna?” Flutningsmaður tillögunnar Andrea Helgadóttir svaraði á þá leið og leiðrétti þann skilning Alexöndru að ekki væri verið að biðja borgarstjórn um umfangsmikil fjárframlög, heldur frekar liðsinni og stuðning líkt og segir í tillögu hennar.
Alexöndru varð hinsvegar ekki haggað og sat við sinn keip í afstöðu og andsvörum sínum og hafnaði því að borgin sýndi stuðning eða veitti liðsinni við áform Samtaka Leigjenda við að koma leigjendum hjá Heimstaden til bjargar. Hún sagðist eiga mjög erfitt með tillöguna um að styðja Samtök Leigjenda og sjá engan rökstuðning fyrir því að veita þeim liðsinni frekar en einhverjum öðrum. Það var ljóst að borgarstjórinn var á sama máli enda greip hann rauða spjaldið fyrstur manna við atkvæðagreiðsluna og hafnaði tillögunni.
Áform Samtaka leigjenda á íslandi við að afla umræddu verkefni stuðning er á góðu reki og eru frekari fundir fyrirhugaðir í þeim efnum á næstu dögum. Þrátt fyrir að borgarstjórn Reykjavíkur og rökstuðning borgarfulltrúa Pírata fyrir því að hafna umleitunum Sósíalistaflokksins um stuðning við leigjendur þá hefur víðast verið tekið vel í frumkvæði samtakanna. Markmiðið um að koma leiguíbúðum Heimstaden inn í samvinnufélag sem tryggi það um ókomna framtíð að leigureksturinn verði eingöngu kostnaðamiðaður og í eigu leigjendanna sjálfra er í algerum forgangi þessi dægrin.
Hér er hægt að horfa á umræður um tillöguna: