Íslensk stjórnvöld senda egypska fjölskyldu á götuna í Grikklandi

Fjögurra manna egypskri fjölskyldu var tilkynnt í gær að þau verði flutt með lögregluvaldi í flugvél á mánudaginn. Verða þau send til Grikklands – þar sem vægast sagt slæmar aðstæður bíða þeirra.

Um er að ræða fjölskyldu sem samanstendur af faðir, móðir, ásamt unglingunum Kenzi, 16 ára, og Keven 19 ára. Hafa þau verið á flótta frá heimalandi sínu í um fimm ár, og komu þau hingað til lands fyrir 10 mánuðum síðan. Ástæða þess að þau neyddust til að flýja heimaland sitt er sú að þau aðhyllast ákveðna gerð af kristinni trú (Coptic orthodox) sem ekki er vel séð í heimalandi þeirra. Þar fyrir utan eru þau á sama tíma einnig mjög listræn – á hátt sem þau upplifðu miklar ofsóknir fyrir. Báðir foreldrarnir eru hárgreiðslufólk, og ráku á sínum tíma þrjár hárgreiðslustofur í Egyptalandi þar sem öllum var tekið með opnum örmum.

Féll þetta illa í kramið hjá mörgum, en fjölskyldan upplifði það að kirkja þeirra var brennd, ásamt því að stofur þeirra urðu fyrir ítrekuðum og alvarlegum skemmdarverkum. Faðirinn upplifði einnig líkamlegt ofbeldi, en þau sáu sig á endanum tilneydd til þess að flýja landið. Fóru þau fyrst til Tyrklands. Þaðan komust þau til Grikklands, og svo með flugi þaðan hingað til lands fyrir 10 mánuðum síðan.

Eins og áður segir fengu þau að vita í gær, af lögreglunni, að þau verða flutt með valdi í flugvél á mánudaginn sem mun flytja þau aftur til Grikklands. Að öllum líkindum um miðja nótt, en það hefur verið stíll íslenskra stjórnvalda hingað til.

Fólkið sem um ræðir, sem sjá má á myndinni með fréttinni, hefur verið mjög duglegt við að sækja íslenskunámskeið á þessari 10 mánaða dvöl sinni. Hafa þau kynnt sér land og þjóð eftir allra fremsta megni. Strákurinn í fjölskyldunni, Keven, glímir einnig við alvarlegt vandamál í fætinum sem krefst aðgerðar – eitthvað sem engin heilbrigðisyfirvöld í neinum af löndunum sem þau hafa verið í á ferðalagi sínu hafa verið tilbúin til að veita honum.

Athygli vekur að brottvísunin kemur einungis nokkrum dögum áður en fjölskyldan fær rétt á málsmeðferð samkvæmt íslenskum útlendingalögum. En það væri á laugardeginum í næstu viku.

Ástandið í Grikklandi

Fjölskyldunni bíður vægast sagt slæmar aðstæður við komuna til Grikklands. En eins og endalausar hjálparstofnanir, alþjóðleg samtök aðgerðasinna, og fleiri hafa bent endalaust á, þá bíður þeim sem send eru tilbaka þangað lítið annað en líf á götunni. Íslensk stjórnvöld eru mjög vel meðvituð um þetta.

Dyflinnarreglugerðin

Íslensk stjórnvöld munu án nokkurs vafa skýla sér á bakvið Dyflinnarreglugerðina og halda því fram að þau eru tilneydd til þess að senda þau tilbaka til Grikklands vegna hennar. Eins og þau gera alltaf í svona málum.

Hinsvegar þá er þetta einfaldlega bláköld lygi hjá þeim: Dyflinnarreglugerðin kveður á um að löndum sé heimilt að senda fólk aftur til þess lands sem það kom frá. Hún segir nákvæmlega ekkert um að þeim beri skylda til þess.

Með öðrum orðum: það er alfarið og einungis ákvörðun íslenskra stjórnvalda hvort þau sendi fólk á götuna í öðrum löndum eða ekki.

Þau ákveða langoftast að gera það.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí