Evrópusambandið samþykkti í gær umbótastefnu í hælisleitenda- og innflytjendamálum. Það sem vakið hefur mest athygli í nýju stefnunni er sekt upp á 20 þúsund evrur fyrir hvert aðildarríkjanna sem neitar að taka á móti flóttafólki. Það gera rétt tæpar 3 m.kr. á flóttamann.
Það er ekki hægt að segja að þessari nýju stefnu hafi verið tekið vel af öllum fulltrúum allra landa ESB. En fyrir utan að þessi mál eru eitthvað sem hart hefur verið deilt um í mörg ár, þá var nýja stefnan ekki samþykkt fyrr en eftir 12 tíma harðar samningaviðræður í Lúxemborg.
Hins vegar var samningum ekki náð fyrr en gefið var töluvert eftir í leyfi aðildarríkjanna til að senda hælisleitendur- og flóttafólk aftur til annarra landa. Snerist ágreiningurinn aðallega um ákvæði nýju stefnunnar sem kveður á um að lönd verði að geta sýnt fram á ákveðna tengingu flóttafólks og hælisleitenda við landið sem verið er að senda það til.
Mikið var deilt um hversu mikil tengingin þurfti að vera, og á endanum var gefið töluvert eftir í því hversu ströng þau skilyrði voru.
Ekki öll löndin eins sátt
Opinbera stefnan hefur ekki enn verið gefin út af Evrópusambandinu, en fulltrúar Svíþjóðar og Hollands vildu meina að um sögulegt samkomulag sé um að ræða.
Búlgaría, Litháen, Malta og Slóvakía sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Þýskaland, Írland, Lúxemborg og Portúgal sögðust ætla að halda áfram að berjast fyrir breytingum til hins betra í stefnunni. Pólland hefur harðlega mótmælt þessari nýju stefnu.
Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Piantedosi, virtist hafa blendnar tilfinningar. Ítalía, ásamt Grikklandi og Spáni, hafa verið í framlínunni í þessum málum. Sagði hann um nýja samninginn að eitthvað væri að minnsta kosti að gerast.