Ríkisstjórnin ákvað að hækkar örorku- og ellilífeyri um 2,5% um mitt ár og kynnti þetta sem aðgerð til að verja hin tekjulægstu fyrir verðbólgunni. Þetta mun ekki duga til þess, ekki frekar en um áramót eða mitt síðasta ár þegar ráðherrarnir kynntu einnig aðgerðir til bæta lífeyrisþegum verðbólguna.
Í fyrra var örorku- og ellilífeyrir hækkaður um 3% um mitt ár. Ástæðan var að verðbólgan var miklu hærri en þegar fjárlög voru afgreidd í desember 2021. Þá hafði Hagstofan sent frá sér Þjóðhagsspá þar sem verðbólgan 2022 átti að verða 3,3%. Í mars kom ný spá Hagstofunnar þar sem verðbólgan 2022 var sögð stefna í 5,9%.
Grunnlífeyrir fatlaðs fólks var í ársbyrjun rúmar 253 þús. kr. Í 3,3% verðbólgu hefði hann skerst um 8.361 kr. á þávirði en í 5,9% stefndi í að skerðingin yrði 14.949 kr. Sem sagt um 6.588 kr. meira en reiknað var með. Ríkisstjórnin hækkaði þá lífeyririnn um 3% sem jafngiltu 7.601 kr., örlítið meira en sem nam skerðingu vegna aukinnar verðbólgu samkvæmt spám.
Þetta hefði verið ágætt ef verðbólgan í fyrra hefði ekki endað í 8,3%. Skerðingin varð því 13.429 kr. þrátt fyrir hækkunina um sumarið. Það er mikil skerðing, 5,3% kjaraskerðing. Við gerð fjárlaga var gert ráð fyrir að skerðingin yrði 3% en hún varð 2%.
Þá kom að fjárlögum fyrir yfirstandandi ár, 2023. Þá lá þjóðhagsspá Hagstofunnar til grundvallar þar sem verðbólgan á árinu 2022 var metin upp á 8,2% og spáð að verðbólgan 2023 yrði 5,6%. Í fjárlögunum hækkaði ríkisstjórnin örorku- og ellilífeyri um 7,4% og sögðu að verið væri að hækka lífeyri umfram verðlag. Það er ekki rétt. Þarna var gert ráð fyrir að verðbólgan á árinu 2022 hafi verið 8,2% en ekki 5,9%, eins og reiknað var með síðast þegar lífeyririnn hækkaði. Þessi hækkun um síðustu áramót gerði því lítið annað en að hækka lífeyri svo hann héldi í við verðlag. Að því gefnu að verðbólgan í ár yrði 5,6%.
Sem mun ekki ganga upp. Nú spáir Seðlabankinn að verðbólgan verði 8,8% í ár. Og til að mæta þessum mun, frá 5,6% upp í 8,8%, hefur ríkisstjórnin ákveðið að hækka örorku- og ellilífeyri um 2,5%. Sem er ljóst að mun ekki bæta verðbólguna.
Hér má sjá þróun grunnörorkulífeyris frá janúar 2021 og út þetta ár, miðað við verðbólguspá Seðlabankans:
Línan er dregin við raunvirði lífeyrisins í janúar 2021. Eins og sjá má er verðbólgan fljót að grafa undan kauðmætti lífeyrisins og hækkanir ríkisstjórnarinnar ná ekki að bæta lífeyrisþegum verðbólguna. En þrátt fyrir þetta kynna ráðherrarnir þessar verðlagsleiðréttingar eins og um raunhækkanir sé að ræða.
Þegar meta á áhrif verðbólgunnar á kaupmátt verður að hafa í huga að neysla lágtekjufólks er öðruvísi en fólk með meðaltekjur, að ekki sé talað um fólk með fullar hendur fjár. Hlutdeild húsnæðis og matar er miklu þyngri hjá fólki með litlar tekjur, en þetta eru einmitt liðirnir sem hafa hækkað mest að undanförnu.