Halla lætur Ásgeir heyra það: „Það er nefnilega rangt sem Seðlabankastjóri heldur fram“

Halla Gunnarsdóttir, formaður efnahags- og skattanefndar ASÍ og stjórnarkona í VR, segir Ásgeir Jónssyni Seðlabankastjóra til syndanna í pistli sem hún birtir bæði á Facebook  og í Morgunblaðinu. Halla segir Ásgeir vaða í villu og svíma þegar hann kennir verkalýðshreyfingunni um verðbólguna. Hún segir að Ásgeir virðist ekki átta sig á því að þegar fólk hefur ekki í sig, þá krefst það launahækkana. Hér fyrir neðan má lesa pistil Höllu í heild sinni.

Þegar fólk hefur ekki í sig og á þarf verkalýðshreyfingin að knýja á um launahækkanir annars vegar og kerfisbreytingar hins vegar. Það verður stef næstu kjaraviðræða og þar verða stjórnvöld að koma að borðinu með skilning á því efnahagsástandi sem ríkir bæði á Íslandi og alþjóðlega. Þann skilning er því miður ekki að finna í Seðlabankanum.

Það má varla á milli sjá, hvor er hneykslaðri á launafólki í landinu, Seðlabankastjóri eða blaðamaðurinn sem tók við hann viðtal sem birt var í Morgunblaðinu í gær. Gildishlaðnar spurningar blaðamannsins væru þó algert aukaatriði, ef ekki væri fyrir hin kreddufullu svör Seðlabankastjóra sem eru í fullum takti við yfirlýsingar hans síðastliðna daga.

Í stuttu máli liggur ábyrgðin á verðbólgunni, samkvæmt orðum Seðlabankastjóra, að mestu hjá öllum öðrum en þeim sem fara fyrir ríkisfjármálum og peningastefnunni. Stjórnvöld má kannski, að mati bankastjórans, helst gagnrýna fyrir að vera ekki öflugri á niðurskurðarhnífnum, en Seðlabankinn sjálfur hefur gert allt rétt. Vaxtaákvarðanir hans hafa skilað sínu, að öðrum kosti væri verðbólgan örugglega hærri. Þessi fullyrðing er sett fram án nokkurs rökstuðnings og byggir í besta falli á getgátum. En hvort sem stýrivaxtahækkanirnar hafa virkað að einhverju marki eða ekki, þá er augljóst að skaðinn af að beita svo breiðvirku lyfi er þegar orðinn gríðarlegur.

Launahækkanir teknar til baka

Það er nefnilega rangt sem Seðlabankastjóri heldur fram að verkalýðshreyfingunni megi kenna um verðbólguna því hún hafi verið að elta verðbólguna með launahækkunum. Krafan um launahækkanir eru ekki orsök verðbólgu, heldur afleiðing óstefnu í efnhags- og húsnæðismálum, vaxandi ójöfnuðar og sterkrar stöðu fyrirtækja. Þær launahækkanir sem samið var um á almennum markaði síðastliðinn vetur halda að stofninum til ekki í við verðbólgu. Þær elta því ekki verðbólguna en voru vissulega tilraun til að draga úr því mikla höggi sem heimilin verða fyrir vegna ástandsins. Eignastéttin verður ekki fyrir þessu höggi. Hagnaðartölur sýna svart á hvítu að hin ríku verða ríkari á sama tíma og almenningur á erfiðara með að ná endum saman og láglaunafólk hættir að hafa í sig og á.

En Seðlabankastjóri telur verkalýðshreyfinguna vera helsta sökudólginn fyrir verðbólgunni og atvinnurekendur að því leytinu til að þeir hafi samið um launahækkanir sem ekki var innistæða fyrir. Innistæðuna vill hann ákvarða sjálfur og gefa út miðstýrð fyrirmæli um hvernig næstu kjarasamningar eigi að líta út, samhliða því að hann gagnrýnir vinnumarkaðinn fyrir að hafa ekki farið að hans fyrirmælum í aðdraganda gildandi samninga. Í þessu felst hótun – sem hefur raungerst – um að hann muni alltaf geta tekið til baka launahækkanir umfram það „svigrúm“ sem hann telur sjálfur vera fyrir hendi. Svigrúmið metur hann út frá kenningum sem eru bæði umdeildar og ónákvæmar, og því rammpólitískar. Þar er skautað framhjá því eilífðar viðfangsefni kjarasamninga um hver eigi að vera hlutdeild hagnaðar og hlutdeild launa í framleiðslunni. Verkalýðshreyfingin gerir þá lágmarkskröfu að fólk fái sanngjörn laun fyrir vinnu sína frekar en að hlaðið sé enn frekar undir ríka fólkið. Laun eiga að ákvarðast í kjarasamningum, ekki með tilskipunum að ofan frá Seðlabankanum, og grunnforsendan er að fólk geti lifað góðu lífi af launum sínum.

Hagnaðurinn aukinn

Það eru síðan stjórnvöld og Seðlabankinn sem hafa öll stjórntækin í hendi sér til að fyrirbyggja og takast á við verðbólgu. Þau geta tekið peninga úr umferð þar sem þeir eru, stýrt fjármagni þangað sem þess er þörf og tryggt framboð af húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Þau geta takmarkað ofsagróða banka og auðlindagreina og reist skorður við hagnaðardrifnum verðlagshækkunum. Verðhækkanir nútímans snúast nefnilega ekki um að „velta kostnaðarhækkunum út í verðlag“ heldur einmitt að nota tækifærið á verðbólgutímum til að hækka verð, auka hagnaðinn og skara þannig eld að eigin köku. Þetta er sá þáttur verðbólgunnar sem er hagnaðardrifinn og Seðlabankastjóri kýs að líta algjörlega framhjá.

Þegar fólk hefur ekki í sig og á þarf verkalýðshreyfingin að knýja á um launahækkanir annars vegar og kerfisbreytingar hins vegar. Það verður stef næstu kjaraviðræða og þar verða stjórnvöld að koma að borðinu með skilning á því efnahagsástandi sem ríkir bæði á Íslandi og alþjóðlega. Þann skilning er því miður ekki að finna í Seðlabankanum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí